Styrktarfélagið Göngum saman var stofnað árið 2007 af Gunnhildi Óskarsdóttur og vinkonum hennar, en félagið hefur veitt tugi milljóna í styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini.
Níunda gangan
Gunnhildur segir félagið hafa mætt ótrúlegri velvild og jákvæðni. Hún segir þessa styrki vera mjög mikilvæga fyrir vísindamennina sem eru að vinna frábært starf fyrir framtíðina.
Félagið efnir til sinnar níunda vorgöngu fyrir alla fjölskylduna, en hún fer fram sunnudaginn 8. maí frá Háskólatorgi og hefst klukkan 11:00. Þá eru einnig göngur á 15 öðrum stöðum á landinu, sjá upplýsingar á gongumsaman.is
Frjáls framlög til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini
Gengið verður í Borgarnesi, Stykkishólmi, Patreksfirði, Ísafirði, Hvammstanga, Siglufirði, Akureyri, Vopnafirði, Egilsstöðum, Neskaupstað, Reyðarfirði, Höfn, Vestmannaeyjum, Selfossi og Reykjanesbæ.
Gangan er gjaldfrjáls en göngufólki gefst kostur á að styrkja rannsóknir á brjóstakrabbameini með frjálsum framlögum eða með því að festa kaup á varningi Göngum saman. Í ár verða m. a. seldir bolir, höfuðklútar og margnota innkaupapokar sem hannaðir voru sérstaklega fyrir félagið af Lóu Hjálmtýsdóttur og vettlingar úr íslenskri ull, hannaðir af Farmers Market.
Orðið krabbamein er svo gildishlaðið
Við á Kokteil tókum viðtal við Gunnhildi fyrir ári síðan þegar áttunda gangan fór fram og þá hafði hún m.a. þetta að segja:
„Þegar ég fór af stað með þetta þá var ég að hugsa þetta fyrir komandi kynslóðir. Þetta tekur svo langan tíma, svona rannsóknir eru langhlaup. Þótt lækning finnst ekki í dag þá trúi ég því að það muni gerast einn daginn. Og til þess að sú trú fái vængi þurfum við að styrkja vísindamennina svo lækning finnist. Við þurfum að skilja eðli og orsakir sjúkdómsins sem getur verið svo margbreytilegur.
Brjóstakrabbamein er ekki allt eins og þú getur aldrei borið þig saman við næsta mann. Hver einstaklingur er einstakur. Orðið krabbamein er líka svo gildishlaðið. Svo ég tali út frá sjálfri mér þá hefur mér t.d. aldrei fundist ég vera að berjast við krabbamein. Ég hef hins vegar lifað með því. Og mér hefur í raun aldrei fundist ég veik nema þá helst í lyfjameðferðunum vegna þeirra aukaverkana sem þeim fylgja.“
jona@kokteill.is
HÉR má lesa allt viðtalið við Gunnhildi.