Það er mistur og verulega þungskýjað. Skúr à stöku stað. Heilaþokan er í hámarki.
Það er erfiðara að muna og orðin vefjast fyrir mér.
Liðirnir og vöðvarnir liggja andvaka og neita að starfa. Vilja senda mig í draumaheiminn.
Orkan er minni en engin en samt held ég àfram; vinn og sinni heimilinu og fjölskyldunni eins vel og ég get.
Ósýnilegur óvinur
Það er ekki auðvelt að berjast við ósýnilegan (ó)vin sem lætur à sér kræla þegar síst skyldi. Ég brosi og læt sem ekkert sé að; segi alltaf að allt sé ljómandi að frétta. Vinir sem þekkja mig betur en ég sjàlf sjá í gegnum mig og vita það rétta. Það er nauðsynlegt að eiga vini þar sem gríman má falla án þess að heimurinn farist við það.
Ég vil hafa orku í lífið. Ég vil vera til. Ég vil njóta. Ég vil geta hreyft mig.
Líkaminn er bara ekki alltaf samstarfsfús og lætur mig krassa. Þá er það eitt að labba upp tröppurnar heima mikið afrek.
Fylgt mér í 20 ár
Ég þarf að vinna í sjálfri mér á hverjum degi; borða rétt, hreyfa mig hæfilega og umfram allt ná góðum nætursvefni. En ég þarf stöðugt að minna mig á að taka tillit til óvinarins. Óvinar sem hefur verið samferða mér í gegnum lífið í 20 ár. Þessi óvinur sem fylgir mér er vefjagigtin.
Í fyrsta sinn í langan tíma àtti ég góðan vetur og þakka èg það breyttu mataræði, góðri hreyfingu og miklum stuðningi frà þjàlfara sem og fjölskyldu. En það er ekki allir dagar góðir og stundum er það hugurinn og gamla góða þrjóskan það eina sem rekur mig áfram. Afrek dagsins voru samt ekki af smærri gerðinni; garðslàttur, herbergisþrif og 6 km ganga. En ég mun gjalda fyrir það á morgun.
Að baki er 20 tíma vinnuhelgi og framundan er meira en 40 tíma vinnuvika. En handan við hornið er smà frí og vonandi sól og hiti og það sem ég óska helst; hvíld og hleðsla à rafhlöðum líkamans.
Ég ætla að njóta komandi viku. Leyfa mér að gera eitthvað jàkvætt og skemmtilegt á hverjum degi en umfram allt mun ég þakka fyrir lífið og alla góðu dagana.
Agnes Björg Arngrímsdóttir
Sjáðu líka HÉR ítarlega umfjöllun um vefjagigt – einkenni, greiningu og meðferð.