Það er áhugavert að skoða áhrif systkinaraðar á okkur – og er greinilega ýmislegt sem þar spilar inn í.
Þeir sem eiga systkini vita hvernig þetta virkar og til dæmis það hvernig elsta barnið setur reglurnar. Og að miðjubarnið er ástæðan fyrir því að þessar reglur eru yfir höfuð til og svo það að reglurnar virðast bara alls ekki eiga við yngsta barnið.
Þá finnst eldri systkinum oft yngsta barnið njóta ýmissa forréttinda sem þau nutu ekki.
En hér eru 10 ástæður fyrir því hvers vegna yngsta barnið er svona viðkunnanlegt
1. Yngsta barnið er oft fyndnara og sniðugra
Og fyrir því er góð ástæða. Elsta barnið er t.d. sagt það ábyrgðarfyllsta og þar sem ábyrgðin er á þeirra herðum þarf yngsta barnið ekki að hafa áhyggjur af því. Þau eru því afslappaðri, kátari, áhyggjulausari og sjá oft það skondna við hluti og aðstæður sem þeim eldri yfirsést.
2. Þau eru oft óhefðbundin og öðruvísi
Oft fá yngstu börnin fötin af eldri systkinum sínum og því þvælist tískuvitið ekkert sérstaklega fyrir þeim. Þau verða því ekkert allt of upptekin af útlitinu og þróa oft með sér sérstakan stíl sem gerir þau að þeim sem þau eru.
3. Þeim er treystandi
Þótt systkini rífist og sláist þá eru þau tengd órjúfanlegum böndum og þeim böndum fylgir mikil ábyrgð. Ef eldri systkini trúa því yngsta fyrir leyndarmálum sínum geta þau verið þess fullviss að það fer ekkert lengra. Yngsta barnið metur það mikils að fá slíkt traust frá eldri systkinum sínum og það fylgir þeim inn í fullorðinsárin.
4. Þau eru góðir hlustendur
Yngsta barnið er svo vant því að þurfa að hlusta á ráðleggingar foreldra, eldri systkina og allra annarra sem vilja deila visku sinni með því – hvort sem barnið vill heyra það eða ekki. Og til þess að vera ekki dónaleg þá hlusta þau bara og taka þetta inn. En um leið þjálfast þau í því að hlusta á aðra og vita að ef þau ekki hlusta gætu þau misst af einhverju góðu.
5. Þau kunna að vera sjálfum sér nóg
Á meðan eldri systkinum finnst þau þurfa að keppast um athyglina er yngsta barnið sátt við að blandast hópnum þegar þannig stendur á. Þau venjast því að eldri systkinin taki athyglina og læra því að vera sjálfum sér nóg og sætta sig við það.
6. Þau læra meira af mistökum annarra en sinna eigin
Yngri systkini líta alltaf upp til eldri systkina og hvort sem fyrirmyndin er góð eða ekki þá er þetta það sem þau hafa fyrir augunum. Þau gæta sín á því að gera ekki sömu mistök og þau horfa upp á eldri systkini sín gera.
7. Þau eru venjulega úthverfari en eldri systkinin
Þar kemur ábyrgð elsta systkinis aftur við sögu. Því þar sem yngsta barnið getur leyft sér að vera áhyggjulausara verður það oft opnara og úthverfara.
8. Þau eru meira skapandi en eldri systkinin
Oft fá yngstu börnin minni athygli en elsta barnið fékk. En það þarf ekki að vera neikvætt fyrir þau því þetta gefur þeim tækifæri til þess að hugsa út fyrir kassann. Auk þess þá eiga reglurnar ekki við yngsta barnið eins og þið vitið og það veitir þeim aukið frjálsræði til að næra sköpunargáfuna.
9. Þau þurfa færri reglur en eldri systkinin þurftu
Eftir að hafa sett skrilljón reglur með eldri börnin þá slaka foreldrar oft á öllum þessum reglum með yngsta barnið. Þau eru komin á þann stað í uppeldinu að þau vita hvað virkar og hvað virkar ekki – og því eru þau ekkert allt of mikið að reyna.
10. Þau eru og munu alltaf vera „litla“ barnið
Foreldrarnir munu alltaf sjá yngsta barnið sem litla barnið sitt. Og það sama á við eldri systkinin og aðra fjölskyldumeðlimi – þau verða alltaf „barnið“. Yngsta barnið er það síðasta í röðinni til að gera allt það sem hin hafa áður gert og þess vegna munu þau alltaf eiga sérstakan stað í hjarta foreldranna.