Fyrir um það bil fjórum árum fórum við hjónin ásamt nokkrum góðum vinum út á lífið. Ekkert óvanalegt nema þar var sú ákvörðun tekin að hefja söfnun í sameiginlegan sjóð sem svo átti að nýta til ferðalags þegar við yrðum fimmtug. Þar sem við erum nú ekki öll fædd á sama árinu þá voru fimmtugs afmælin að detta inn á misjöfnum tíma en fljótlega var ákveðið að mars 2015 yrði fyrir valinu sem ákjósanlegur ferðatími þar sem hann féll nokkurn veginn á mitt tímabil afmæla.
Söfnunin gekk mjög vel og fljótlega hittist ferðahópurinn til að taka ákvörðun hvert skyldi halda. Nokkrum hugmyndum var varpað upp þar til valið stóð á milli tveggja atburða. Að lokum var ákveðið að fara í siglingu um Karabíska hafið.
Hugsanir mínar voru sprottnar af kvíða og minnimáttarkennd
Jeii!! VúHú! Sögðu allir í hópnum fullir tilhlökkunar um siglingu um framandi höf og í heitu loftslagi, ég þar með talin. En með sjálfri mér varð mér um og ó. Hvarflaði ekki að mér að láta þær hugsanir mínar heyrast upphátt því þær voru sprottnar af kvíða og minnimáttarkennd sem ég efaðist um að samferðafólk mitt myndi skilja. Kvíða og minnimáttarkennd yfir hverju? Jú, það vill nefnilega svo til að þó ég hafi lengi framan af verið í fanta formi líkamlega þá var ég svo fjarri því að vera það þarna – og hafði ekki verið í nokkur ár …
„Drullaðu þér þá í form“ er ég viss um að einhver segir. Hey! Ég sagði það sama – og ég reyndi, en það tókst ekki. Ég veit ég er ekki sú staðfastasta en „kommon“. Þetta var ekkert auðvelt og ég hef mínar skýringar á því en þær verða ekki tíundaðar hér.
Puðaðist með lóðin og fór á dansnámskeið
Tíminn fram að siglingu leið ótrúlega hratt. Sennilega af því ég hlakkaði ekki beint til… þið vitið hvað sagt er, ef maður hlakkar til þá er tíminn svo lengi að líða. Ég puðaðist með lóðin, fór á dansnámskeið, þetta er það tvennt sem mér finnst gaman að gera. Tók inn alls konar vítamín og bætiefni, passaði mataræðið og meira að segja keypti fitubrennsluefni.
Til að vera viss um að mæta í ferðalagið vel búin fatnaði að meðtöldum sundfatnaði, sem mér myndi líða vel í lagðist ég í netpantanir og ýmsar óskir. Allt skilaði sér tímanlega fyrir ferð – nema það sem ég stólaði mest á og óskaði helst eftir en það voru línurnar 90-60-90. Þær skiluðu sér ekki. Og jæja. Þá var bara að taka á málum af æðruleysi eins og presturinn sagði.
Þrátt fyrir að línurnar hafi ekki skilað sér í hús tímanlega tókst mér að finna tilhlökkunina. Ferðalagið hófst. Flug, hótel, akstur, annað hótel og loks skip. Þvílíkur lúxus. Þvílíkur léttir. Það var engu logið og hvergi ýkt í bæklingnum og að vera ávarpaður með fornafni af starfsfólki strax við komuna um borð fékk mann til að finnast maður vera spes.
Það var hátíðleg stund þegar skipið sigldi úr höfn og fólk sem var búið að raða sér meðfram útsiglingunni hrópaði, blístraði og veifaði þegar skipið sigldi hjá. VúHú! Þetta var orðið að veruleika. Samt svo óraunverulegt.
Einstaka mjóna renndi til manns vorkunnaraugum
Siglingin frá Florida til Puerto Rico, sem var fyrsta stopp, gekk ótrúlega vel. Spegilsléttur sjórinn skartaði öllum þeim bláu litum sem hægt er að hugsa sér. Hitinn lá í plús 28 gráðum og fljótlega urðu allir sólbekkir á þilförum skipsins þéttlegnir fólki, músíkin dunaði við sundlaugina og það var meira að segja dansað. Fólk í fagurlitum klæðum og baðfötum fyllti þilför skipsins sem að sögn skipstjórans, var það fallegasta sem sigldi um höfin en kapteinninn sem var sjálfur grískt goð tilkynnti okkur, farþegum skipsins, fegurð þess reglulega með sínum seiðandi hreim í hátalarakerfi fleysins.
Ég vissi það áður en ég lagði af stað að ég yrði „feita kellingin“ í hópnum. Mínum hópi, en innan um tæplega 3 þúsund farþega í alls konar líkamsástandi, jafnbreiðu og bláu litirnir í hafinu fann ég smátt og smátt að það var ekki það sem skipti máli. Þó einstaka mjóna renndi til manns vorkunnaraugum – þá veit ég að ég er kroppur inn við beinið og það sem skiptir meira máli; með ágæta heilsu og kollinn í lagi!
Mikið djöfull er ég flott
Hver hefur ekki heyrt dæmisöguna um rosknu hjónin sem eftir margra ára hjónaband litu sjálf sig ólíkum augum. Þó fegurð eiginkonunnar væri aðeins farin að fölna með árunum þótti hún enn stórglæsileg og hélt líkamsvexti sínum vel. Engu að síður dró hún sjálfa sig niður í hvert skipti sem hún sá spegilmynd sína. Eiginmaðurinn hafði hins vegar bætt á sig þó nokkrum kílóum og var kominn með myndarlega ístru. Þrátt fyrir það, í hvert sinn, er hann leit á sína spegilmynd sló hann á vömb sér og sagði hvellhátt: „Mikið djöfull er ég flottur!“
Hugsunarháttur sem við konurnar mættum tileinka okkur í ríkara mæli – undirrituð alls ekki undanskilin.
Eftir siglingu um hið fagra Karabíska haf með viðkomu á nokkrum fallegum eyjum eru hugmyndir mínar um lífsgæði og auðævi örlítið breyttar. En þarna sá maður glögglega hve lífsgæðum fólks er misskipt, en eyjaskeggjar sem áður höfðu lífsviðurværi af sykurreyr og saltvinnslu lifa nú nær eingöngu af ferðamennsku og sums staðar var fátækt greinileg á meðan aðrir virtust hafa það mjög gott.
Ég hef reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að jákvætt hugarfar, góð heilsa og traustir vinir sé það sem skiptir mestu máli í lífinu og færi manni mesta hamingju en ekki það að vera með hinn fullkomna líkamsvöxt eða þrútið veski af peningum. Þó vissulega geti hvort um sig látið manni líða eitthvað betur þá er það ekki það sem skiptir mestu máli.
Með þá hugsun í kollinum og örlítið breyttu viðhorfi henti ég mér í bikiníið, en um leið og ég virti spegilmynd mína fyrir mér skellti ég flötum lófa á vömbina og sagði upphátt: „Mikið djöfull er ég flott!“
Rut Kristjánsdóttir
Kíktu HÉR á greinina Lætur þú aðra brjóta þig niður?