Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um kosti og galla þess að drekka vín.
Sífellt fleiri rannsóknir sýna fram á ágæti þess að drekka vín í hófi – á meðan aðrar rannsóknir sýna augljóslega hversu alvarlegar afleiðingar ofdrykkja getur haft í för með sér.
Víndrykkja getur haft jákvæð áhrif á geðheilsuna
Samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var á Spáni á 5.500 einstaklingum af báðum kynjum þykir sýnt að víndrykkja geti haft áhrif á geðheilsuna.
Þáttakendur sem voru á aldrinum 55 til 80 ára voru allir í áhættuhópi á að þróa með sér þunglyndi. Rannsóknin sem tók yfir sjö ár leiddi í ljós að hófleg víndrykkja hafði jákvæð áhrif á þessa einstaklinga. Hér er þó fyrst og fremst átt við léttvín en ekki sterkt vín.
Tvö til sjö glös á viku
Þeir sem drukku tvö til sjö glös af léttvíni á viku voru í töluvert minni hættu á að þróa með sér þunglyndi en hinir sem ekki drukku. En aftur á móti voru þeir sem drukku of mikið komnir í hinn endann – þeir voru sem sagt í meiri hættu á að þjást af þunglyndi.
Spánverjar eru nú yfirleitt kátir og hressir og er kannski skýringin sú að eitt vínglas á dag komi skapinu í lag. Alla vega er mjög algengt að Spánverjar drekki vín með matnum og skiptir þá engu máli hvaða vikudagur er.