Hvaða kona kannast ekki við það að róta í töskunni sinni að leita að einhverju!
Stundum er ekkert skrýtið að við finnum ekki nokkurn skapaðan hlut í töskunni okkar því við erum svo gjarnar á að geyma og safna alls kyns hlutum í hana. Það eru varalitir, lyklar, tyggjóbréf, bréfklútar og þurrkur, púður, hárburstar, veski, sími, pappírar, snarl, snúrur og ýmislegt fleira.
Margir dagar ævinnar fara í töskuna
En vissir þú að 34, 5 prósent kvenna eyða meira en 80 dögum ævinnar í að róta í töskunni sinni?
Fyrirtæki í Ástralíu gerði könnun á því hvað konur setja í töskurnar sínar og hvort eða hvernig þær nota það sem er í töskunni. Markmið könnunarinnar var að varpa ljósi á leyndardóma handtöskunnar. En margir karlmenn hrista einmitt hausinn yfir töskum eiginkvenna sinna og myndu ekki fyrir sitt litla líf reyna að finna eitthvað í töskum þeirra.
En fyrir okkur konur er handtaskan afar mikilvægur fylgihlutur og allt það sem er í henni – eða hvað?
Um 18,5 prósent kvenna eyða 10 mínútum á dag í að leita í töskunni sinni, en það þýðir víst að þær eyði 162 dögum af ævinni í að róta í tösku. Og aðeins 3,7 prósent kvenna sagðist vita nákvæmlega hvar allt væri að finna í töskunni sinni.
En hvað er til ráða til að losna við þessa endalausu leit og rót í töskunni sinni?
Fyrir það fyrsta þá verður það að viðurkennast að flestar töskur eru ekki hannaðar fyrir þessar þarfir okkar því útlitið ræður oftast för. Engu að síður er eitt sem við getum gert og það er að taka reglulega til í töskunni sinni – en þá þarf að taka ALLT upp úr henni og fara vel í gegnum þetta og henda því sem ekki er verið að nota. Þetta er gott að gera hverja eða aðra hverja helgi, eða að lágmarki einu sinni í mánuði, því eins og við vitum þá er ansi fljótt að safnast alls kyns dót og drasl í töskuna.
Og það sem gerist líka þegar við tökum reglulega til í töskunni er að hún léttist þar sem við erum ekki að bera alls kyns dót sem við notum ekkert út um allt.
Röð og regla
Gott er líka að gera það að vana að spyrja sjálfa sig áður en eitthvað er sett í töskuna hvort þetta sé eitthvað sem við þurfum virkilega að hafa í henni. Hafðu hluti sem eru líkir saman og ef taskan er stór er sniðugt að hafa litlar buddur (svona eins og snyrtibuddur) til að hafa hlutina aðskilda – þá er enn auðveldara að finna allt fljótt.
Að hafa allt í röð og reglu í töskunni sinni gerir lífið bara auðveldara.
jona@kokteill.is