Vaselín ætti að vera til á hverju heimili þar sem þetta er svo mikil snilldar vara. Það er staðreynd að vaselínið er fyrir langa löngu búið að sanna ágæti sitt enda hefur varan verið til í meira en 150 ár.
Fyrir utan þá endalausu notkunarmöguleika sem vaselín býður upp á þá er verðið auðvitað eitt það besta við það.
Það má nefnlilega leysa ansi margt með vaselíni – sem annars þyrfti fleiri og dýrari vörur í.
Hér eru nokkrar frábærar leiðir til að nota vaselín
Fyrir augnhárin
Því hefur lengi verið haldið fram að vaselín geti hjálpað til við að lengja augnhárin. En þetta er víst ekki alveg rétt en hins vegar getur vaselín haft góð áhrif á augnhárin. Ef þú vilt fá fallegri, þéttari og mýkri augnhár er vaselín málið.
Þú getur borið það á með bursta eða fingrunum. En ekki nota þessa aðferð allan ársins hring. Betra er að taka ákveðin tímabil og stoppa svo.
Það má líka bera örlítið vaselín á augnhárin áður en maskarinn er settur á þau en þetta lætur augnhárin líta út fyrir að vera lengri en þau eru. Svínvirkar segja þær sem nota þetta trix!
Fyrir augnförðunina
Það er snilldar ráð að nota vaselín til að fjarlægja augnförðunina. Settu vaselín á fingurinn og nuddaðu því á augnsvæðið þar til öll förðunin fer af. Þurrkaðu þá með bómull og hreinsaðu síðan með vatni eða hreinsivatni.
Það má líka nota Vaseline til að bjarga augnförðuninni. Ef eitthvað hefur farið úrkseiðis sem þú vilt lagfæra er gott ráð að setja örlítið af vaselín á eyrnapinna og strjúka í burtu það sem þú vilt fjarlægja.
Fyrir augabrúnirnar
Eins og með augnhárin getur vaselín verið gott fyrir augabrúnirnar. Berðu það á með bursta, getur líka notað tannbursta, ef þú vilt fá mýkri og þéttari brúnir.
Þú getur líka notað vaselín til að móta brúnirnar fyrir förðunina.
Fyrir ilmvatnið
Viltu fá sem mest út úr ilmvatninu þínu og láta lyktina endast betur?
Prófaðu að nudda örlitlu vaselín á þau svæði sem þú setur ilmvatnið á – settu svo á þig ilmvatn og lyktin endist lengur.
Fyrir kinnbeinin
Í staðinn fyrir að draga fram og lýsa upp kinnbeinin með því að nota rándýran „highlighter“ geturðu notað vaselín. Settu örlítið á fingurna og settu yfir kinnalitinn með léttum strokum. Þetta gefur þér meira ljómandi og geislandi útlit.
Þú getur líka notað vaselín á kinnbeinin þótt þú sért ekki förðuð en það getur gefið þér náttúrulegan ljóma.
Fyrir fæturna
Margir eru með sprungna og harða hæla. Vaselín hefur löngum verið talið afar gott við þessu vandamáli. Berðu það á hælinn og nuddaðu vel inn.
Ef allur fóturinn er þurr er gott að bera vaselín á hann allan fyrir svefninn og sofa síðan í sokkum.
Fyrir húðina
Ef húðin er mikið þurr á ákveðnum svæðum líkamans, eins og til dæmis á olnbogum, hnjám og höndum er gott að nudda vaselíni á svæðið. En þú þarft ekki mikið magn í einu.
Fyrir hárið
Ef hárið er rafmagnað, úfið og stendur út í allar áttir er ágætt ráð að setja örlítið af vaselín í það – þetta á líka við slitna enda. Gættu þess þó að þú þarft aðeins örlítið af efninu.
Fyrir svörtu nabbana á nefinu
Já vaselín er líka gott fyrir þá. En hvernig er það notað?
Byrjaðu á því að hreinsa andlitið. Berðu svo vel af vaselín á allt nefsvæðið.
Leggðu síðan plastfilmu yfir svæðið og þrýstu henni alveg að húðinni.
Taktu síðan heitt og rakt þvottastykki og þrýstu því á svæðið. Haltu því þannig í fimm mínútur.
Fjarlægðu þá bæði þvottastykkið og filmuna.
Vefðu síðan mjúkum bréfþurrkum á hvora löngutöng til að þrýsta á nefsvæðið og ná nöbbunum út.
Stjörnurnar og Vaseline
Margar frægar leikkonur, söngkonur og fyrirsætur hafa í gegnum tíðina notað vaselín og sverja og sárt við leggja að það svínvirki.
Leikkonan Jennifer Aniston setur t.d. vaselín undir augun á hverju kvöldi áður en hún fer í rúmið. Og þakkar hún því nær hrukkulaust augnsvæði.
Aðrar stjörnur sem nota vaselín reglulega eru meðal annars Jennifer Lopez og Tyra Banks.
Átt þú ekki örugglega vaselín í skápnum?