Ég er búin að vera í mörg ár á leiðinni að búa mér til kínóagraut þar sem hann er svo næringarríkur. Fyrir nokkrum vikum tók ég loksins af skarið og í dag útbý ég hann á hverjum degi.
Ég verð að viðurkenna að mér fannst hann ekkert ofboðslega góður fyrst. En ég þurfti að prufa mig áfram þar til þetta var orðinn æðislegur grautur og núna hlakka ég til að borða hann á morgnana.
Hér er uppskriftin að uppáhalds kínóagrautnum mínum.
Ekki láta uppskriftina sem slíka fæla þig frá því að gera hann. Þetta virðist flókið en er það alls ekki. Og sannarlega þess virði að prófa. Gangi þér vel.
Kínóagrautur
1 ½ dl kínóa (búið að liggja í bleyti yfir nóttina) skola það áður en það fer í pottinn
3 dl vatn
½ tsk vanilluduft
1 tsk kanill
smá salt
Allt sett saman í pott. Suðan látin koma upp.
Lækkið þá hitann og sjóðið í 15 mínútur eða þar til allt vatnið er horfið.
Þetta má nota í staðinn fyrir kanilinn; setjið anísstjörnu, vanillustöng eða negulnagla út í pottinn.
Chia gel
1 msk chia fræ
125 ml kalt vatn
Chia fræin sett út í vatnsglasið og hrært annað slagið.
Mangó Möndlumjólk
1 dl möndlur (búnar að liggja í bleyti í 8 klst)
1 bolli kalt vatn
3-5 stk döðlur
¼ tsk vanilluduft
Smá salt
½ – 1 bolli frosið mangó
Möndlurnar og vatnið sett í blandarann þar til möndlurnar hafa maukast smátt. Vökvanum hellt í gegnum sigti og hann síðan látinn aftur í blandarann.
Blandið þá döðlum, vanilludufti, salti og mangó saman við möndlumjólkina í blandaranum. Blandið þar til orðið silkimjúkt.
Þetta má nota í staðinn fyrir mangó; jarðaber/bláber/berjablanda/hindber
Hellið kínóagrautnum í skál og bættið chiagelinu saman við. Hellið síðan mangó möndlumjólkinni yfir.
Gott getur verið að strá gojiberjum og/eða kókosflögum/hnetum/fræjum yfir grautinn.
Verði ykkur að góðu!
Hafdís Kristjánsdóttir

Hafdís er heilsuráðgjafi og jógakennari með óbilandi áhuga á heilbrigði og hollustu