Við erum alltaf að leita eftir einföldum og fljótlegum lausnum fyrir hárið. En gerum um leið þær kröfur að það sé líka smart.
Hér eru tvær afar einfaldar og fljótlegar aðferðir fyrir sítt hár
Strandarhár
Liðað og bylgjað hár, svona eins og þú sért nýkomin af ströndinni, hefur verið vinsælt undanfarið. Með þessari einföldu aðferð geturðu fengið strandarhár á nokkrum mínútum.
Settu mótandi efni í hárið. Skiptu hárinu í tvo hluta og rúllaðu þeim saman þannig að hárið verði snúið. Blástu síðan hárið með hárblásara á fullum krafti.
Útkoman
Eftir blásturinn ætti hárið að vera bylgjað og frjálslegt, svona nokkurn veginn eins og þú hafir vaknað þannig um hárið.
Þessi aðferð gefur líka líflausu og sléttu hári fylllingu. Þá hentar þessi aðferð vel til að eiga við náttúrulega liði sem geta verið erfiðir.
Tagl með engri teygju
Stundum er gott að geta tekið hárið upp í tagl og frá andlitinu en flestar teygjur setja hins vegar leiðinda far í hárið.
Með þessari aðferð er hárið sjálft notað til að festa taglið.
Taktu tvo litla lokka af hárinu sitt hvorum megin bak við eyrun.
Notaðu lokkana til að binda hárið upp, þú þarft að setja þá í kross undir hárið til að ná því upp. Síðan er bundinn hnútur og fest með lítilli spennu.
Útkoman
Látlaust, einfalt en smart tagl sem beyglar ekki hárið.
Til að gera þetta meira eins og greiðslu er sniðugt að snúa örlítið upp á lokkana áður en allt hárið er tekið upp.
Þá er líka hægt að vefja lokkunum tvisvar utan um hárið áður en það er fest niður og bundinn hnútur.
Myndir: Stone, Benjamin