Flest eigum við bæði góða hárdaga sem og slæma – en með því að hugsa vel um hárið má hins vegar fjölga góðu dögunum.
Þetta er ekkert flókið – hugsaðu vel um hárið þitt og það mun skila sér!
En hvað getum við gert til að hugsa um hár okkar á sem allra besta hátt?
Hér eru 10 leiðir að fallegra hári
1. Farðu reglulega í klippingu
Ekki sleppa því að fara í klippingu því það leiðir aðeins til þess að endarnir klofna og slíkt er aldrei fallegt. Auk þess gæti þurft að klippa meira af hárinu næst til að jafna hárið og ná klofnum endum í burtu.
Gott er að fara í klippingu á sex til átta vikna fresti en þeir sem eru með stutt hár gætu þurft að fara oftar þar sem klippingin vex úr sér.
2. Greiddu varlega úr flækjum
Til að koma í veg fyrir að endar slitni skaltu greiða mjúklega í gegnum hárið. Byrjaðu að greiða hárið neðst til að losa um flækjur og færðu þig síðan upp. Mikilvægt er að nota góðan hárbursta sem rífur ekki hárið.
3. Takmarkaðu þær hárvörur sem þú notar
Leitastu við að nota ekki meira en þrjár tegundir af efni í hárið eftir að þú hefur þvegið það. Ef þú notar of mikið af hárvörum getur það auðveldlega haft þau áhrif að hárið virkar ekki eins lifandi – en of mikið af efnum dregur hárið niður.
4. Notaðu djúpnæringu
Að setja djúpnæringu reglulega í hárið getur gjörbreytt heilbrigði hársins. Gott er að þurrka mesta vatnið úr hárinu með mjúku handklæði og setja næringuna í. Vefja hárinu síðan inn í heitt handklæði og leyfa næringunni að vera í hárinu í 20 mínútur.
Þetta er mjög gott að gera einu sinni í viku fyrir hámarks árangur. Ef þú hefur ekki tíma í það þá er tvisvar í mánuði líka gott og einu sinni í mánuði er betra en ekkert.
5. Nuddaðu hársvörðinn
Daglegt nudd örvar blóðflæðið og auðveldar dreifingu hinnar náttúrulegu fitu sem er í hársverðinum.
Notaðu báðar hendur og nuddaðu með hringlaga hreyfingum. Byrjaðu fremst og nuddaðu upp höfuðið og svo niður að aftan – og endaðu á hnakkanum. Ágætt er að gera þetta tvisvar í svona fimm til tíu mínútur í senn.
6. Það skiptir máli hvernig hárið er þurrkað
Ekki nota handklæði sem eru gróf því það fer ekki vel með hárið. Gættu þess að handklæðið sé mjúkt og það má líka nota mjúkan bómullarbol eða handklæði úr microfiber-efni sem sýgur vatnið vel í sig.
Og ekki snúa upp á hárið og vinda það – reyndu heldur að strjúka eða kreista vatnið úr því með fingrunum. Mjög gott ráð er líka að nota mjúka eldhúsrúllu til að ná sem mestum vökva úr hárinu en sú aðferð getur einnig komið í veg fyrir að hárið verði úfið.
7. Notaðu rétta sjampóið
Mikilvægt er að nota sjampó sem hentar þínu hári – ekki bara grípa eitthvað og setja í hárið á þér. Það eru til sérstök sjampó fyrir allar hárgerðir og gott er að fá leiðbeiningar á hárgreiðslustofunni.
8. Lækkaðu hitann
Reyndu að draga úr notkun heitra tækja í hárið. Hafðu tækin stillt á minni hita (meðal) þegar þú blæst hárið og notar sléttu- eða krullujárn. Þá getur líka verið gott að leyfa hárinu aðeins að þorna sjálfu og blása það svo. Í dag má einnig fá efni sem spreyjað er í hárið til að það þorni hraðar og um leið minnka tímann sem fer í blásturinn.
9. Ekki þvo hárið of oft
Það fer ekki vel með hárið að þvo það oft í viku með öllu sem því fylgir, eins og blæstri og slíku. Láttu duga að þvo það tvisvar í viku – og það má svo nota þurrsjampó þess á milli. En þurrsjampó fást í dag víða og geta verið afar hentug.
10. Borðaðu rétt fyrir hárið
Mataræði sem er ríkt af góðri fitu hentar hárinu vel og gefur því aukinn glans og styrk. Ólífuolía, feitur fiskur, avókadó, möndlusmjör, Omega-3 fitusýrur og nóg af vatni er t.d. allt gott fyrir hárið.