Svefninn er afar mikilvægur og ef við sofum ekki nóg kemur það niður á daglegu formi okkar.
En alvarlegra er þó langvarandi svefnleysi því það getur haft afar neikvæðar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu.
Hér eru 10 góð ráð til að sofa betur
1. Hafðu reglu á háttatímanum
Það er mikilvægt að fara alltaf að sofa á svipuðum tíma. Líkaminn þarfnast rútínu. Rétt eins og þú stillir klukku til að vakna á ákveðnum tíma á morgnana er alveg jafn nauðsynlegt að koma sér í rúmið á ákveðnum tíma.
Veldu tíma til að fara í rúmið og haltu þig við þann tíma – líka um helgar.
2. Útilokaðu utanaðkomandi hljóð
Öll utanaðkomandi hljóð geta truflað svefninn, og það sama á við um hrotur makans. Mjög gott ráð er að fjárfesta í litlum tækjum sem gefa frá sér hin ýmsu hljóð eins og t.d. vindhljóð, rigningarhlóð, viftuhljóð og margt fleira.
Öll þessi hljóð eiga að hafa róandi áhrif og bæta svefninn.
3. Engin ljós
Slökktu öll ljós og gættu þess að hafa algjört myrkur í svefnherberginu. Þetta á einnig við ljós af tölvum, sjónvarpi og öðru slíku.
Að hafa myrkur hjálpar til við að öðlast góðan svefn.
4. Heitt eða kalt herbergi?
Sannað þykir að betra sé að hafa frekar í kaldara lagi en heitt í svefnherberginu. Lækkaðu í ofnunum því kaldara herbergi leiðir til þess að líkaminn hvílist betur.
5. Koddinn er afar mikilvægur
Miklu máli skiptir að koddinn sem þú sefur með henti þér. Sama tegund af kodda hentar ekki öllum og taka þarf tillit til svefnstellinga í þeim málum.
Ef koddinn sem þú sefur með hentar þér ekki hefur það slæm áhrif á svefninn.
6. Ekki hugsa of mikið
Þegar þú leggst upp í rúm á kvöldin ekki þá láta hugsanir um vinnuna, heimilisstörrf og annað slíkt ná tökum á þér.
Einbeittu þér að önduninni – en mjög gott er að anda nokkrum sinnum djúpt inn og út til að ná fullkominni slökun.
7. Farðu í heitt bað
Ef þú átt erfitt með svefn er gott ráð að fara í heitt bað fyrir háttinn. Líkaminn róast við það og þegar líkamshitinn lækkar aftur eftir heitt baðið sækir svefninn að.
8. Ef þig verkjar einhvers staðar
Ekki fara að sofa og vonast til þess að verkurinn hverfi. Það eina sem gerist er að þú verður andvaka og þá líður þér enn verr.
Taktu frekar verkjatöflu fyrir háttinn svo verkurinn trufli ekki svefninn.
9. Haltu ró þinni
Ekki fara á taugum þótt þú sofnir ekki þegar þú leggst upp í rúm. Það gerir ekkert annað en að lengja tímann þar til þú sofnar.
Haltu ró þinni og alls ekki hugsa; ég get ekki sofnað, ég get ekki sofnað og nú verð ég ósofin/n á morgun. Slakaðu á og hugsaðu fallegar hugsanir og mundu eftir önduninni.
10. Og hafðu þetta á hreinu
Það er engin leið til að bæta upp tapaðan svefn. Ekki nokkur! Þess vegna er mikilvægt að gæta þess að fá alltaf nægan svefn.
Að ætla sér að sofa lengur um helgar, eða taka kríu um eftirmiðdaginn gerir ekkert annað en að rugla líkamann. Mundu að líkaminn þarfnast rútínu, eins og kom hér fram á undan.