Það er eitt og annað sem við lærum með hærri aldri og auknum þroska. Sumt er afar augljóst á meðan annað getur verið erfiðara að læra eða sætta sig við.
Hér eru 10 atriði sem við lærum með tímanum – og ef þú hefur ekki nú þegar gert það þá er kominn tími til.
Tíu góðar lífslexíur
1. Röng markmið
Við eyðum stærstum hluta lífsins í að eltast við röng markmið og tilbiðja ranga hugmyndafræði. Þann dag sem við áttum okkur á því má segja að lífið hefjist fyrir alvöru.
2. Hver er í fyrsta sæti?
Við getum aldrei gert öllum til hæfis – hvað þá gert öllum til geðs alltaf. Settu sjálfa/n þig í fyrsta sæti og þá sem þú elskar í annað sætið. Ekki hafa neitt samviskubit því allir aðrir eru hvort eð er svo uppteknir af því að setja sjálfa sig í forgang.
3. Elli kerling
Það þýðir ekkert að ergja sig á elli kerlingu, enda miklu betra að fá að eldast heldur en ekki. Njóttu þess því að fá að eldast.
Vissulega breytist líkami okkar en hann hefur líka stöðugt verið að breytast alveg frá fæðingu. Ekki eyða tíma í að reyna snúa ferlinu við – sættu þig við breytingarnar og sjáðu fegurðina sem fylgir hærri aldri.
4. Fullkomnun?
Það er enginn fullkominn og hvort sem þú trúir því eða ekki þá er enginn fullkomlega sáttur við sjálfan sig. Þegar það síast inn hjá þér geturðu losað þig við dómhörku í eigin garð og hætt að bera þig saman við aðra. Í þessu felst mikið frelsi.
5. Mistök
Það er enginn sem tekur eftir því þegar þú gerir rétt – en allir taka hins vegar eftir því þegar þú gerir mistök. Þegar við náum að átta okkur á því förum við að gera hlutina af réttum ástæðum og þá verður líka allt svo miklu skemmtilegra.
6. Líkaminn
Með tímanum sérðu eftir því að hafa eytt orku þinni og tíma í að vera of gagnrýnin/n og neikvæð/ur gagnvart eigin líkama og útliti. Því fyrr sem þú sættir þig við þetta hylki sem sál þín býr í því betra. Líkami þinn er magnað fyrirbæri en hann skilgreinir þig ekki sem manneskju.
7. Heilsan
Með aldrinum áttum við okkur á því hversu mikilvæg heilsan er. En streita, óttti og áhyggjur fara mun verr með heilsuna en gómsætur matur og drykkur sem þú neitar þér stöðugt um. Hamingja, friður og sátt eru besta meðalið.
8. Saga þín
Þegar við eldumst förum við að hugleiða hver komi til með að muna eftir okkur og fyrir hvað. Staðreyndin er sú að ást okkar og viska lifir mun lengur en allir þeir veraldlegu hlutir sem þú skilur eftir fyrir erfingja þína og ástvini. Segðu sögu þína og talaðu við fólkið þitt.
9. Ævintýri eða skylda?
Við fáum ekki langan tíma hér á jörðinni en ef þú hins vegar ert sífellt að berjast á móti straumnum getur lífið orðið eins og lífstíðardómur.
En lífið á ekki að vera eins og skylduverk eða rútína – lífið á að vera eins og ævintýri því það er sannkallað ævintýri að fá að vera til.
10. Njótum og notum
Við ættum alltaf að njóta þess besta í stað þess að geyma eða spara það. Drekkum fína vínið í stað þess að geyma það, notum sparistellið á mánudögum og spariskóna á fimmtudögum.
Það er engin trygging fyrir morgundeginum! Dagurinn í dag er gjöf – svo étum, drekkum og verum hamingjusöm.