Hamingjan er ekki eitthvað sem bara gerist. Að vera hamingjusamur er nokkuð sem við getum tileinkað okkur. Og eins og með flest annað í lífinu þá kemur hún ekkert til okkar á silfurfati.
Þetta er vinna
Ólíkt því sem margir halda þá krefst það vinnu að vera hamingjusamur og það þarf stöðugt að hafa gætur á hugsunum sínum og viðhorfi.
Þess vegna er hamingjan val og eflaust eitt það skynsamlegasta sem þú getur valið í þessu lífi. Enda benda nýjustu rannsóknir til þess að hamingjusamt fólk sé 35% ólíklegra en aðrir til að látast fyrir aldur fram.
Hér eru tíu mikilvæg atriði sem þú ættir að hafa í huga viljir þú virkilega vera hamingjusamur
1. Ekki festast í fortíðinni
Öll eigum við okkar fortíð – og hún getur verið full af vonbrigðum, mistökum, særindum og óuppfylltum væntingum. Allt þetta er hluti af okkar sögu og okkar lífi en það er algjör óþarfi að láta fortíðina stjórna framtíðinni og núinu.
Lærðu að meta það sem þú hefur núna og gerðu það besta úr aðstæðunum og láttu núið vera það sem skiptir máli.
2. Ekki einblína á það sem þér finnst vanta í líf þitt – horðu frekar á það sem þú hefur
Vertu þakklát/ur fyrir það sem þú hefur því hamingan snýst ekki um að eiga allt það sem þig langar til. Það má endalaust velta sér upp úr því sem manni finnst vanta en það getur líka skemmt fyrir því að þú kunnir að meta allt það sem þú hefur.
Að vera þakklát/ur setur hlutina í samhengi og gerir þig um leið jákvæðari í lífinu.
3. Ekki vera of harður og gagnrýninn gagnvart sjálfum þér
Sýndu sjálfri/sjálfum þér þolinmæði og vægð því þú ert eflaust að gera eins vel og þú getur. Við erum allt of oft óvægin í eigin garð og gerum lítið úr sigrum okkar í lífinu. Sættu þig við að þú verður aldrei fullkomin/n – því það er enginn. Umvefðu veikleika þína og galla því þeir geta líka verið þínir helstu kostir.
4. Lærðu af lífinu
Lifðu lífinu lifandi og njóttu hvers dags eins og hann sé sá síðasti. Við erum öll ólík og það er engin ein rétt leið sem hentar öllum í þessu lífi. Lærðu af mistökum þínum og láttu lífsreynslu þína leiða þig til frekari þroska.
5. Ekki vanmeta gæðatíma með sjálfri/sjálfum þér
Einbeittu þér að því að elska sjálfa/n þig í stað þess að láta þig dreyma um að allir aðrir elski þig. Það er alveg jafn mikilvægt að gefa sjálfum sér tíma eins og að sinna verkefnum hvers dags. Og ekki rugla spennu og lífi og fjöri við hamingjuna því mestu hamingjuna er að finna innra með okkur.
6. Hugsaðu vel um líkama þinn
Við fáum aðeins þennan eina líkama til afnota og hann á að endast okkur út ævina. Því er mikilvægt að fara vel með hann svo hann endist. Ef við gerum það ekki getur það orðið okkur dýrkeypt – en sá kostnaður felst í heilsu- og orkuleysi. Hófleg hreyfing og skynsamlegt mataræði getur því skipt sköpum.
7. Ekki bera þig saman við aðra
Líf okkar allra er ólík vegferð – en það gerir bæði lífið og okkur sjálf sérstök og einstök. Því fyrr sem við sættum okkur við það hver og hvernig við erum því hamingjuríkara líf getum við átt. Umvefðu þig fólki sem kann að meta þig og er ekki stöðugt að reyna að breyta þér.
Sönn hamingja felst í því að lifa lífinu á eigin forsendum og án þess að bíða og vonast stöðugt eftir samþykki og viðurkenningu annarra.
8. Ekki láta neikvæðar hugsanir ná yfirhöndinni
Reiðin, afbrýðisemin og gagnrýnin eru ekki góðir lífsförunautar. Allar leiða þær frekar til neikvæðari hugsana og eitra líf þitt. Hafðu hugfast að hugsanir þínar geta skipt sköpum varðandi hamingjuna.
9. Ekki kenna öðrum um mistök þín og ósigra
Taktu ábyrgð á eigin gjörðum því aðeins þannig nærðu fullkominni stjórn á eigin lífi. Ef þú kennir stöðugt aðstæðum og öðru fólki um ertu ekki sjálf/ur við stjórnvölinn. Ekki heldur treysta á að aðrir leysi vandamálin fyrir þig – gerðu það sjálf/ur en fáðu hjálp frá öðrum við það.
10. Ekki tengja hamingjuna við eitthvað í framtíðinni
Ertu að bíða eftir að eitthvað gerist í lífinu sem færir þér hamingjuna? Hættu því lífið er núna. Lífið er vegferð og mikilvægt að njóta ferðarinnar eins og hún leggur sig. Og alls ekki fresta hamingjunni – reyndu að sjá allt það smáa í lífinu sem færir því raunverulega gildi.