Það verður að viðurkennast að fólk er sjaldan eins frísklegt í framan eins og á sumrin þegar það verður sólbrúnt, sætt og freknótt. Það væri ekki leiðinlegt að eiga möguleika á því að vera svoleiðis oftar en bara á sumrin hér á okkar kalda landi.
Hvernig hljómar að fá sér tímabundið freknuhúðflúr?
Það hljómar örugglega vel í eyrum þeirra sem fá aldrei freknur en vildu óska þess að þeir gerðu það. Nú gæti nefnilega draumurinn ræst.
Nýtt fyrirtæki sem heitir Freck Yourself hefur hrint af stað söfnun á Kickstarter til að kosta þeirra fyrsta verkefni/vöru: Freknuhúðflúr sem endist í 48 tíma.
Það er einfalt að setja freknurnar á sig. Til þess notar þú stensil, sérstakt efni sem myndar freknurnar og svamp til að nota á stensilinn.
Vissulega hafa verið framleiddar vörur til að framkalla gervifreknur, eins og til dæmis freknu penninn frá Topshop sem þú notar einfaldlega til að teikna þær á þig. En munurinn á þessari vöru og öllum hinum eru stenslarnir. Þeir gera það að verkum að freknumynstrið verður náttúrulegt og útkoman eðlileg. Það mun enginn sjá að þær eru ekki ekta.
Freck Yourself er enn að safna fyrir fyrstu framleiðslunni á Kickstarter.En á meðan beðið er eftir að varan detti í verslanir, er hægt að panta fyrirfram og fá hana svo senda til sín í febrúar á næsta ári.
Sigga Lund