Að eyða tíma með eldra fólkinu sínu er gott fyrir alla – bæði fyrir þau og okkur sjálf.
Rannsóknir sýna fram á að því meiri tíma sem þú eyðir með foreldrum þínum, ömmum og öfum og öðrum eldri ættingjum getur bætt nokkrum árum við líf þeirra.
Einmanaleikinn styttir lífið
Vísindamenn við University of California í San Francisco hafa komist að því með rannsóknum sínum að einmanaleiki spilar stóran þátt í skertri getu og hnignun einstaklingsins þegar fólk eldist. Í rannsókninni, sem tók sex ár, var fylgst með 1600 eldri einstaklingum.
Niðurstöður sýndu fram á að einmanaleikinn vó þyngra en félagsleg staða og heilsa þáttakenda. Þeir sem voru einmana lifðu skemur en hinir og létust 23% þeirra á þeim sex árum sem rannsóknin stóð yfir – á móti aðeins 14% þeirra sem ekki voru einmana og áttu í stöðugum samskiptum við aðra. Ekki skipti máli hvort þessir einmana einstaklingar bjuggu einir eða ekki.
Þörf okkar fyrir samskipti
Sú þörf okkar að vilja vera innan um fólk sem þekkir okkur og færir okkur gleði hverfur ekkert þótt við eldumst. Og það sem meira er að þá kann eldra fólk enn betur að meta þessi sambönd og auk þess hefur það einnig meiri þolinmæði gagnvart göllum og sérvisku annarra.
Mikilvægt er fyrir fullorðið fólk að finna að einhverjum þyki vænt um það og að það hafi enn tilgang í lífinu.
Það margborgar sig því að vera duglegur að bjóða afa, ömmu, pabba og mömmu í mat – og ekki gleyma að það er gott fyrir alla. Þau fá þann félagsskap sem þau þarfnast – og við fáum að upplifa sögur þeirra, endalausa þolinmæði og hlý faðmlög.