Miklar hormónabreytingar eiga sér stað í líkama kvenna á breytingaskeiði sem geta haft ýmsar afleiðingar í för með sér.
Þessar breytingar hafa meðal annars áhrif á leggöngin og geta þau orðið þurrari en sjálf eyðimörkin. Hormónahringlið getur því óneitanlega haft veruleg áhrif á kynlífið.
Estrógen fer þverrandi
Skortur á estrógeni veldur því að slímhúðin í leggöngunum verður þynnri og ekki eins teygjanleg og áður. Þetta leiðir til þess að endar taugaþráða eru grynnra undir yfirborði slímhúðarinnar og því viðkvæmari fyrir núningi við samfarir. Slíkum breytingum á slímhúðinni fylgir þurrkur, sársauki, kláði, eymsli og sviði.
Afar algengt vandamál hjá konum á breytingaskeiði
Þurrkur í leggöngum er afar algengt vandamál hjá konum á breytingaskeiði en sem betur fer lifum við á tímum þar sem til er lausn við nærri öllu. Það er því óþarfi að láta þetta eyðileggja ánægjuna af kynlífi, sérstaklega þar sem kynlífið getur hjálpað til við að draga úr öðrum einkennum þessa tímabils.
Í apótekum má finna krem sem geta komið að góðum notum. Mikilvægt er samt að nota aðeins þau sleipiefni eða rakakrem sem sérstaklega eru ætluð til notkunar í leggöng – ekki nota vörur sem innihalda vaselín eða ilmefni því þær geta aukið þurrkinn og valdið ertingu. Einnig er vert að hafa í huga að forðast sápu eða freyðibað þar sem slík efni geta valdið þurrki.
Ekki algengt að konur ráðfæri sig við lækni
Þá má einnig benda á að til er sérstök meðferð við þurrki í leggöngum en slíkt þarf að ræða við lækni. Til dæmis eru til stílar, skeiðartöflur eða hringir úr plasti, fylltir estrógeni, sem er komið fyrir í leggöngunum. Með þessari aðferð berst estrógen beint í vefinn í leggöngunum sem hjálpar til við smurningu og þykknun legganganna.
Þrátt fyrir að meðferðin sé staðbundin má búast við að eitthvað af efninu fari út í blóðið sem gerir þetta þá um leið að óhentugum kosti fyrir þær sem alls ekki vilja uppbótarhormóna í líkamann. En þessi lyf eru auðveld í notkun og geta hentað konum sem finna fyrir miklum óþægindum og þurrki í leggöngum.
Enn er ekki algengt að konur leiti sér sérstaklega hjálpar út af þurrki í leggöngum en auðvitað ættu konur ætíð að leita sér hjálpar ef eitthvað er farið að há þeim og standa í vegi fyrir lífsgæðum þeirra.
Jóna Ósk Pétursdóttir – kokteillinn@gmail.com