Greindist með krabbamein
Hannes Ívarsson er 58 ára gamall og fyrir rúmum tveimur árum síðan greindist hann með krabbamein í blöðruhálskirtli. Hann hafði fundið fyrir óþægindum í einhvern tíma og í framhaldi af því var hann settur í eftirfylgni vegna stækkunar á kirtlinum – sem þýddi að hann fór árlega í skoðun. Það var svo í lok ársins 2012 sem í ljós kom að miklar breytingar höfðu orðið og stuttu seinna fékk Hannes þær fréttir að hann væri kominn með krabbamein.
Blöðruhálskirtillinn fjarlægður
Hann segist hafa verið lánsamur því hefði hann trassað að mæta í skoðanir væri hann í mun verri málum. Strax í kjölfar fréttanna fór hann í aðgerð þar sem blöðruhálskirtillinn var fjarlægður. Hann valdi þá leið til að vera viss. Hannes segist hvorki hafa farið í geisla- né lyfjameðferð eftir aðgerðina en sumir þurfi hins vegar að ganga í gegnum allan pakkann. Í dag lítur þetta vel út hjá honum og blóðprufur lofa góðu.
Viðkvæm vandamál hjá karlmönnum
Hann segir þó ýmis önnur vandamál tengjast þessum veikindum og tíma geti tekið að vinna sig út úr þeim – og sumir nái því meira að segja aldrei. Þá nefnir hann að oftast séu þessi vandamál ansi viðkvæm hjá karlmönnum og kjósi flestir að ræða þau ekki. Þvagleki er t.d. eitt af því sem fylgir slíkri aðgerð og segir Hannes það hafa verið ansi erfitt. „Ég kveið því raunverulega mest enda ömurlegt að þurfa að nota bleyju aftur, eða svo kölluð herrabindi. Fyrir karlmenn getur þetta verið frekar erfitt fyrir sálina því það er vitað mál að margir drengir hafa átt í erfiðleikum með þvag og pissað undir langt fram eftir aldri. Þetta minnir mann svolítið á það og því var þetta einstaklega erfitt fyrir egóið. Ég hins vegar var svo ákveðinn í því að losna við þetta vandamál að ég setti það strax inn í rútínu dagsins að gera grindarbotnsæfingar og fór reyndar með þær aðeins lengra. Þess utan hleyp ég mikið á hlaupabrettinu og með þessum aðferðum og þrjóskunni náði ég að losna við þvaglekann á sex mánuðum. En ég er heppinn því sumir losna aldrei við þetta“ segir Hannes.
Varð að kaupa sér vakúmpumpu
Annað vandamál sem fylgir blöðruhálskirtilskrabbameini, og er ekki síður viðkvæmt fyrir karlmenn, snýr að kynlífinu. Það getur vissulega verið erfitt og tekið á karlmennskuna. Hannes segist alveg hafa gert sér grein fyrir að þetta yrði vandamál og leitaði sér því sjálfur upplýsinga og fræðslu. Hann ber lækni sínum, Eiríki Orra, vel söguna og segir hann hafa farið vel í gegnum þetta allt saman með sér. Þá hafi hann leitað til Jónu Ingibjargar kynlífsfræðings sem hafi einnig hjálpað honum. „Þegar ég ætlaði að byrja að stunda kynlíf eftir aðgerðina þá bara gerðist ekki neitt. En risvandamál eru fylgifiskur þessa sjúkdóms. Það var ekki fyrr en ég fékk vakúmpumpu sem þvingar blóðið fram í liminn að hlutirnir fóru að ganga, en það var svona fjórum mánuðum eftir aðgerðina. Margir karlar þora þó ekki að kaupa sér þessa pumpu. Vissulega verður auka tilstand í kringum kynlífið með þessu og hef ég líka þurft að nota stinningarlyf. Það getur tekið alveg tvö til fjögur ár að allt verði eðlilegt aftur – en hjá sumum gengur þetta þó ekki aftur til baka“.
Ætlar í mál við ríkið
Honum var uppálagt af lækni að nota stinningarlyfið Cialis strax eftir aðgerðina. En þessi stinningarlyf eru dýr og kostar mánaðarskammtur af Cialis 20.000 krónur og mánaðarskammtur af Viagra kostar 40.000 krónur. Hvorugt er niðurgreitt af ríkinu. Hannes segir þetta vera háar upphæðir fyrir láglaunafólk. „Þetta eru skert lífsgæði og karlmennskan hangir þarna með. Allir læknar sem ég hef talað við styðja það að karlar sem hafa gengið í gegnum blöðruhálskirtilskrabbamein fái stinningarlyf niðurgreidd. Helsti sérfræðingur Íslands í þessum málum segir það vera algjör mannréttindi að við fáum einhverja niðurgreiðslu. Þess vegna ætla ég í mál við ríkið og er það komið í ferli hjá lögfræðingi. Við sækjum um flýtimeðferð á málinu en þetta tekur engu að síður að lágmarki eitt ár. Ég er bjartsýnn á niðurstöðuna og finn mikinn meðbyr. Allir í kringum mig eru jákvæðir gagnvart þessu og mér hefur verið sagt að þetta verði jafnvel leyst án dóms. Sem væri auðvitað óskastaðan“ segir Hannes.
Vill hjálpa þeim sem á eftir koma
Hannes segist fyrst og fremst vera að hugsa um hópinn í þessu þótt þetta myndi vissulega hjálpa honum persónulega. „Við erum þarna margir sem hittumst reglulega í Samtökunum Ljósinu og allir eigum við við þetta sama vandamál að stríða. Þetta er það fyrsta sem fer úrskeiðis hjá okkur, þ.e. karlmennskan. Og ég vil hjálpa öllum þeim sem á eftir koma“!
Höf.: Jóna Ósk Pétursdóttir