Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Hvernig hljómar t.d. að fá sér Frushi?
Frushi er stytting á orðunum „fruit“ og „sushi“ sem þýðir að þetta er ekkert annað en ávaxtasushi.
Mmm… þetta hljómar æðislega.
Þetta er hugsanlega hinn fullkomni eftirréttur. Þeir sem eru hrifnir af Ris a la mande eiga alla vega pottþétt eftir að fíla þennan
Innihald
1 ½ bolli sushi hrísgrjón (það er ekki hægt að nota venjuleg)
2 bollar vatn
3 msk sykur
¼ tsk salt
1 bolli kókósmjólk
1 ½ tsk vanilludropar
Ávextir, til dæmis mangó, ananas, kíví, jarðaber. Í raun er hægt að nota hvaða ávexti sem er og ganga t.d. bananar, appelsínur og jafnvel perur líka.
Aðferð
Skolaðu hrísgrjónin í sigti og settu þau í pott.
Bættu vatni, sykri og salti út í og hrærðu saman. Settu nú lokið á og eldaðu upp að suðu. Þá skaltu lækka hitann og leyfa grjónunum að malla í 12-15 mínútur.
Hrísgrjónin eru tilbúin þegar þau hafa dregið í sig allt vatn. Þá skaltu setja kókosmjólkina og vanilludropana út í og hræra vel saman. Dreifðu svo úr hrísgrjónunum á bökunarplötu svo þau kólni hraðar og til að koma í veg fyrir að þau haldi áfram að eldast.
Skerðu ávextina í lengjur eins mikið og hægt er, því þannig er auðveldara að rúlla þeim upp.
Taktu sushimottu og leggðu á borð og settu plastfilmu yfir.
Dreifðu síðan hrísgrjónum jafnt á plastið. Það er gott að hafa litla skál af vatni til að losa af sér hrísgrjónin sem límast við hendurnar. Raðaðu þá ávöxtunum á hrísgrjónin en passaðu að hafa þau ekki alveg upp við kantinn, aðeins frá er hentugast.
Láttu hugmyndaflugið ráða og gerðu allskonar rúllur. Notaðu jafnvel þunnar mangósneiðar til að setja utan um rúlluna.
Berðu svo frushi-ið fram til dæmis með ávaxtamauki til að dýfa í.
Hér má sjá kennslumyndband í frushigerð
Sigga Lund