Þessar grilluðu kartöfluskífur eru alveg rosalega góðar og bragðmiklar.
Ég prófaði að gera þær í sumar þegar ég var að grilla hamborgara og vildi hafa eitthvað virkilega gott með borgurunum – En þær smellpössuðu með þeim.
Kartöfluskífurnar eru svona á milli þess að vera franskar og kartöfluflögur. Og virkilega einfaldar í framkvæmd.
Ég mæli tvímælalaust með skífunum og get vel ímyndað mér að þær séu líka góðar með lambakjöti.
Uppskriftina fékk ég hjá The Slow Roasted Italian.
Það sem þarf
800 gr til 1 kg meðalstórar kartöflur
2 tsk Cayenne pipar
1 msk smoked paprika
2 tsk salt
1 tsk svartur pipar
1 tsk hvítlauksduft
¼ bolli ólífuolía
Aðferð
Þrífið kartöflurnar og skerið þær síðan í þunnar sneiðar.
Látið kalt vatn og klaka í stóra skál. Setjið kartöflusneiðarnar út í vatnið og látið liggja í því í 20 mínútur.
Hitið grillið.
Blandið öllu kryddinu vel saman í lítilli skál.
Takið kartöflurnar upp úr vatninu og þurrkið þær. Setjið þær síðan í stóra skál og hellið ólífuolíunni yfir þær og veltið þeim vel upp úr henni.
Hellið síðan kryddinu yfir og þekjið allar kartöflurnar með því. Best er að nota hendurnar til að ná að þekja þær allar.
Setjið síðan kartöfluskífurnar á grillið og grillið í 3 til 5 mínútur, eða þar til grillför sjást greinilega á þeim.
Snúið þeim þá við og grillið á hinni hliðinni.
Njótið með hamborgara, lambi, einar sér eða með hverju því sem hugurinn girnist.
Jóna Ósk Pétursdóttir – kokteillinn@gmail.com