Áttu skó sem eru aðeins of þröngir?
Meiða þeir þig þegar þú labbar?
Og er kannski komin vond lykt í þá?
Hér eru nokkur einföld og hagnýt ráð við þessu.
1. Að víkka út skó
Til að víkka út skó er gott ráð að setja vatn í litla plastpoka, þessa með plastrennilásnum, eða binda góðan hnút á venjulegan lítinn poka. Passa samt að setja ekki of mikið vatn í pokana.
Setja síðan pokana í skóna og beint inn í frysti.
Láta skóna vera þar í dágóðan tíma þar til vatnið er vel frosið.
Þegar skórnir eru teknir út þá má annað hvort láta vatnið aðeins þiðna í pokunum og kippa þeim síðan í burtu – eða brjóta klakann og ná pokunum þannig úr skónum.
Þetta ráð svínvirkar og skórnir verða mun rýmri.
2. Að losna við vonda lykt
Til að losna við vonda lykt úr skóm má líka setja skóna inn í frysti. Ekki samt henda gömlu illa lyktandi skónum beint inn í frysti. Settu þá fyrst í plastpoka með rennilás og síðan inn í frysti.
Leyfðu þeim að vera í frystinum yfir nótt en frostið mun drepa alla lykt og bakteríur í skónum.
3. Að losna við blöðrur
Til að losna við að fá blöðrur á fæturna er gott ráð að nudda svitalyktaeyði eða vaselíni á hælana og tærnar þar sem blöðrur myndast gjarnan.
En þetta þarf að gera áður en farið er í skóna – ekki þegar blöðrurnar eru komnar. Afar einfalt.
4. Ef saumar, bönd, eða hart svæði nuddar fótinn
Til að koma í veg fyrir að skór særi þig, t.d. ef það eru saumar, bönd eða eitthvað slíkt sem nuddast við fótinn er sniðugt að setja plástur inn í skóinn á þá staði þar sem þeir meiða.
5. Eitt að lokum
Og að lokum fyrir þá sem vilja losna við vonda lykt úr skónum sínum án þess að setja þá í frystinn þá gera þurrir tepokar mikið gagn.
Setjið tepokana inn í skóna og þeir draga í sig lyktina úr skónum.