Víðar gallabuxur hafa ekki verið vinsælar undanfarin ár hjá konum en það hafa þröngar buxur hins vegar verið. En það gæti farið að breytast og þá ekki tískunnar vegna heldur heilsunnar vegna.
Kona ein þurfti á sjúkrahúsvist að halda
Í mörg, mörg ár hafa konur troðið sér í þröngar buxur. Hver kannast t.d. ekki við það að leggjast í rúmið eða á gólfið til að renna upp?
Málið er að þetta getur víst haft alvarlegar afleiðingar. Samkvæmt fræðilegri grein í fagriti lækna þurfti kona ein á sjúkrahúsvist að halda, í heila fjóra daga, eftir að þröngu gallabuxurnar hennar stoppuðu blóðrás til fótanna.
Hún hrundi niður
Þessi 35 ára gamla ástralska kona hreinlega hrundi niður eftir að hafa verið í gallabuxunum allan daginn við skápaþrif. Og klippa þurfti buxurnar utan af henni þegar hún komst undir læknishendur.
Leggir hennar dofnuðu og bólgnuðu upp og hlaut hún vöðvaskemmdir – og fer líklega ekki í þröngar gallabuxur aftur. Það er kannski ekki algengt að slíkt gerist en sýnir klárlega fram á hversu hættulegt það getur verið að klæðast svona þröngum buxum og þá sérstaklega í langan tíma í einu.