Það er ekkert alltaf tekið út með sældinni að eiga krefjandi börn og þá geta þrjóskir og þverir einstaklingar tekið sérstaklega á. Enda eru sumir foreldrar stundum alveg við það að gefast upp á því að eiga við þrjósk afkvæmin.
En þeir sem eiga þrjósk börn og unglinga geta þó andað léttar því þrjóskan getur víst sagt til um velgengni barnsins í lífinu.
Efnast vel í lífinu
Rannsókn sem framkvæmd var á 700 einstaklingum leiddi í ljós að þessir þrjósku krakkar eru yfirleitt þeir sem efnast vel í lífinu og eru fjárhagslega vel settir.
Byrjað var að fylgjast með börnunum þegar þau voru á aldrinum 8 til 12 ára og lauk rannsókninni síðan fjörutíu árum seinna. Persónuleiki þeirra var skoðaður í upphafi rannsóknarinnar og var sjónum t.d. beint sérstaklega að því hvort börnin væru námsfús, hversu samviskusöm þau voru en einnig hvort þau sýndu gjarnan mótþróa. Þá var skoðað hvaða þættir tengdust því helst að njóta síðan velgengni á fullorðinsárum.
Standa með sjálfum sér
Niðurstöður voru á þá leið að þeir sem sýndu þrjósku og mótþróa höfðu hæstu launin. Þeir sem standa að rannsókninni telja að ástæðan fyrir því sé líklega sú að þrjósku og þveru börnin hafi meiri metnað í skóla og fái þar af leiðandi hærri einkunnir. Sem leiði til þess að sem fullorðnir einstaklingar geri þau meiri kröfur og berjist fyrir sjálf sig og fari því fram á hærri laun hvort sem það pirrar alla í kringum þá eða ekki. Það skiptir þessa einstaklinga einfaldlega ekki máli.
En vísindamennirnir taka þó fram að þrjóskan ein og sér dugi ekki til til að tryggja þrjóska barninu gott líf því greind og fjárhagsleg staða foreldra spili þar líka sinn þátt.