Við erum alltaf jafn hrifin af góðum húsráðum enda getur maður sífellt á sig blómum bætt í þeim efnum.
Góð húsráð geta nefnilega gert lífið svo miklu einfaldara.
Hér eru þrettán einföld eldhúsráð sem allir ættu að kunna
1. Krem á kökur
Þegar krem er sett á köku getur verið erfitt að jafna það út svo fallegt sé. Prófaðu að dýfa hnífnum í heitt vatn og renndu honum svo mjúklega yfir kökuna að ofan og yfir hliðarnar.
Það sama má gera til að skera sneiðar svo þær verði vel og fallega skornar.
2. Egg
Stundum eigum við egg í ísskápnum sem enginn veit hvað eru gömul eða hvort þau eru ónýt.
Til að fá úr því skorið, áður en þú notar eggin, geturðu sett þau í skál, könnu, pönnu eða stórt glas sem þú fyllir af köldu söltuðu vatni. Ef þau sökkva eru þau í lagi en ef þau hins vegar fljóta eru þau skemmd.
3. Grillað kjöt
Áður en þú steikir eða grillar kjöt þerraðu ysta lagið með eldhúspappír. Allur auka raki gerir ekkert annað en að gefa kjötinu áferð soðins kjöts í stað steikts.
4. Kryddað kjöt
Ekki krydda steikur löngu áður en þú eldar þær því það kryddið dregur í sig safann úr kjötinu og þurrkar það upp.
Margir kjósa að salta, pipra og krydda eftir að kjötið hefur verið eldað – og aðrir kjósa að krydda ekki neitt.
5. Kjötbein og afgangs grænmeti
Ekki henda kjötbeinum og grænmeti því þú getur nýtt það í soð. Skelltu öllu í pott, bættu við vatni og hitaðu að suðu. Þú getur síðan notað þetta soð sem grunn í súpur og sósur.
6. Eggjaskeri í fleira en egg
Notaðu eggjaskera til að skera fleira en bara egg. Prófaðu að nota hann á banana, jarðarber, kíví og jafnvel milliharða osta.
7. Kryddin þín
Ekki geyma kryddin þín hjá eldavélinni. Ljós og hiti gera það að verkum að kryddin missa bragðgæði sín.
8. Að vinna sér í haginn
Það er alltaf gott að geta unnið sér í haginn. Ef þú þarft t.d. að nota hvítlauk eða annan lauk nokkrum sinnum í sömu vikunni geturðu undirbúið allt sem þú þarft fyrsta daginn. Setur svo í olíu það sem þú ætlar að nota seinna og geymir.
9. Steiktur matur
Til að halda steiktum mat stökkum eftir eldamennskuna er gott að leyfa honum að hvíla aðeins á járnrekka í stað þess að setja hann strax á disk.
10. Geymdu afgangs drykki
Í stað þess að hella drykkjum eins og víni er sniðugt að setja afganga í klakabox. Síðan má nota það í sósur og fleira seinna. Og hver kannast ekki við að henda sósu? Ekki henda henni – skelltu henni líka í klakaboxið til að grípa í seinna.
11. Smjör í frystinn
Settu smjörstykki í frystinn og leyfðu því svona nokkurn veginn að frjósa. Taktu það síðan út og rífðu það niður með rifjárni. Það er auðvelt að nota smjörið svona í bakstur. Einnig er sniðugt að henda því yfir bakaðar kartöflur og grænmeti.
12. Svona geymirðu ísinn
Notaðu plastpoka með smelltum rennilás til að geyma ísinn í frystinum. Þú setur ísboxið í pokann og lokar. Með þessu móti verður ísinn ekki harður eins og klaki og engar skeiðar bogna þegar þú skefur hann upp.
13. Ekki henda salatinu
Ekki henda salati sem verður afgangs. Settu kálið í skál og leggðu síðan eldhúsrúllubréf yfir það og síðan plastfilmu yfir skálina. Salatið ætti að geymast í viku á þennan hátt.