Stundum látum við einfaldlega allt fara í taugarnar á okkur og pirrum okkur á óþarfa hlutum. Síðan koma líka tímar þar sem við erum bara eitthvað svo þreytt og pirruð.
Svona erum við ansi mörg alla vega. En svo eru aðrir sem alltaf virðast kátir og í góðu skapi. Og kannski er það vegna þess að þeir fara eftir þessum sjö ráðum hér.
Samkvæmt vísindalegum rannsóknum virka þessi sjö ráð
1. Gefðu þér tíma til að lykta af rósunum
Ekki láta litlu hlutina í lífinu alveg fara fram hjá þér í erli dagsins og gefðu þér tíma til þess að lykta af rósunum. En rannsóknir benda einmitt til þess að þeir sem hafa afskorin blóm í vasa á heimili sínu finni fyrir minni kvíða og hafi meiri orku. Merkilegt nokk!
2. Eyddu í upplifun en ekki bara dauða hluti
Sannað þykir að það að eyða peningunum sínum í upplifun, eins og að fara út að borða eða ferðast, geri fólk ánægðara og hamingusamara en að eyða öllu í dauða og veraldlega hluti.
Eyddu því peningunum þínum skynsamlega og skapið verður miklu betra.
3. Hreyfðu þig reglulega
Að hreyfa sig reglulega getur haft mikil og góð áhrif á skapið. Reyndu að hreyfa þig og svitna alla vega þrisvar sinnum í viku. En sýnt þykir að það geti minnkað líkur á þunglyndi.
4. Ekki vera stöðugt á Facebook
Þótt gaman sé að kíkja á Facebook og hún hjálpi okkur að fylgjast með þá er ekki skynsamlegt fyrir andlegu hliðina að vera þar öllum stundum.
Rannsóknir benda til að of mikil notkun samskiptamiðilsins geti bæði leitt til óánægju með eigið líf sem og dregið úr almennri hamingju.
5. Drekktu frekar kaffi en gos
Of mikil neysla sykraðra gosdrykkja getur víst leitt til þunglyndis og þyngra skaps. Þeir sem drekka meira en 1 líter á dag eru í 30% meiri hættu á þunglyndi.
En þeir sem drekka kaffi eru hins vegar í minni hættu og rannsóknir segja kaffidrykkju draga úr líkum á þunglyndi.
6. Gættu þess að fá nóg af D-vítamíni
Rannsóknir sýna fram á að þeir einstaklingar sem hafa lítið magn D-vítamíns í líkamanum séu lang líklegastir til að kljást við þunglyndi.
Gott er að láta fylgjast vel með sér og mæla hvort þig vanti D-vítamín enda erum við hér á landi í meiri hættu þar sem sólarljóss nýtur ekki mikið við stóran hluta ársins.
7. Gefðu sjálfri/sjálfum þér tíma til að slaka á
Reyndu að finna tíma þar sem þú ert alveg í ró og næði einn með sjálfum þér. Hugleiðsla hjálpar líka sumum.
En of mikið áreiti og álag getur gert skapið erfitt og laskað andlegu hliðina. Slakaðu því á inn á milli!