Hversu oft ættum við að þvo hár okkar?
Málið er að það er ekki til eitthvað eitt rétt svar rétt við því. Og í dag kemst maður til dæmis upp með það að þvo hárið sjaldnar, því með tilkomu þurrsjampóa er hægt að draga hárþvott um einn til þrjá daga í viðbót… og jafnvel lengur.
Of oft og of sjaldan
En þótt ekkert rétt svar sé til við því hversu oft við ættum að þvo hárið þá vita flestir að of mikill og ör hárþvottur er ekki góður fyrir hárið.
En það sem kannski færri vita er að það að þvo hárið of sjaldan getur líka haft neikvæðar afleiðingar í för með sér. Og það er einnig svo sannarlega hægt að fara yfir um í notkun á þurrsjampói.
Hársérfræðingar segja enga ákveðnu reglu vera í því hversu oft ætti að þvo hárið – en séu hins vegar allar húð- og hárgerðir teknar inn í dæmið þá vilja þeir meina að vikulegur hárþvottur eigi að duga.
Frá þessu eru þó vissar undantekningar, t.d. ef þú ert með mjög feitan hársvörð þá er í lagi að þvo hárið daglega. Og eins ef þú notar mikið af hárvörum í hárið þá þarf vissulega að þvo hárið oftar.
Er kominn tími á hárþvott?
En hvernig veistu hvenær það er kominn tími á hárþvott?
Best er að fylgjast vel með hársverðinum. Ef þig er farið að klæja, þú finnur vonda lykt og ef hársvörður og hár er aumt viðkomu þá er kominn tími til að teygja sig í sjampóbrúsann.
Hárrótin getur orðið aum viðkomu af uppsöfnuðum dauðum húðfrumum og þá getur myndast flasa. Ef flasan eykst getur hársvörðurinn bólgnað upp og þá verður rótin virkilega aum. Í þessu tilviki er alls ekki rétt að nota þurrsjampó því það þurrkar allt upp og með því að þvo hárið ekki með vatni og sjampói gerirðu ástandið verra.
Þetta er það sem gerist
Með því að þvo hárið of sjaldan aukast líkur á bólgum í hársverði, flösu, hármissi og rauðum flekkjum eða hvítum bólum sem myndast vegna bakteríu- eða sveppasýkingar. Góður reglulegur hárþvottur fjarlægir bakteríur, dauðar húðfrumur og sveppi, auk þess sem hárið lyktar betur og er auðvitað líflegra.
Þegar allt of mikið er í gangi og brjálað að gera þá er vissulega hentugt að teygja sig í þurssjampó brúsann og spreyja í hárið – þetta er jú svo einfalt. En gættu þess að nota það alls ekki of mikið og ekki of oft því hárið og þá sérstaklega hársvörðurinn þarfnast þess að fá góðan þvott alla vega einu sinni í viku.
Þurrsjampó, rétt eins og aðrar hárvörur sem þú setur í hárið eftir hárþvott, safnast upp í hársverðinum og það gerir hárinu engan greiða.
Heimildir – Instyle