Flestum finnst gott að vera stundum einir og fá að vera alveg í friði – sumum reyndar oftar en öðrum.
Og það er líka alveg eðlilegt að vilja fá að vera aleinn, án barna, maka og allra annarra. Enda svo sem ekki oft að fullorðinn vinnandi einstaklingur fái tíma alveg út af fyrir sig.
En hvað ætli konur kjósi að gera þegar þær eru aleinar?
Spurning hvort þið kannist ekki við eitthvað af þessu!
Að skoða og lesa tímarit og bækur
Er það ekki eitthvað sem margar konur kjósa að gera þegar þær eru aleinar og í friði? Að hreiðra um sig í góðum stól eða sófa með tærnar upp í loft og bók eða gott blað í hönd. Alla vega er þetta mjög svo ofarlega á okkar lista hér á Kokteil.
Að fara í heitt og notalegt bað
Heitt freyðibað með notalegri lykt, kerti og notaleg tónlist – og jafnvel maski á andlitinu. Er þetta ekki eitt það besta?
Að hafa sjónvarpið og fjarstýringuna alveg út af fyrir sig
Er ekki notalegt að geta flatmagað í sófanum fyrir framan sjónvarpið og horft á það sem þig langar til? Enginn sem hefur skoðun á því þótt þú horfir á „asnalega“ þætti eða myndir!
Þetta er tíminn þar sem þú horfir á allt það sem enginn annar á heimilinu nennir að horfa á.
Að fá sér það sem þig langar í og eiga það ein
Ísdolla, Nóa-kropps poki, súkkulaði… það hljómar mjög freistandi að eiga þetta út af fyrir sig – og maula jafnvel uppi í rúmi eða meðan horft er á „asnalegu“ þættina.
Að hlusta á tónlist … og hafa hana hátt stillta
Þegar enginn er heima nema þú er freistandi að setja græjurnar í botn og syngja með og dansa. Eða koma sér vel fyrir í góðum stól og hlusta á uppáhalds óperuna eða sinfóníuna alveg í friði fyrir öllum… og eins hátt stillt og þú vilt.
Að slaka á og jafnvel fá sér kríu
Þetta finnst okkur vera algjör forréttindi. Að vera aleinn heima og geta lagst upp í sófa og dottað. Svona nær maður sér í aukaorku.
Og bara að njóta augnabliksins
Þótt við elskum að vera með maka og börnum þá er ekki þar með sagt að við þurfum ekki smá tíma í einrúmi. Að fá að minnsta kosti 20 mínútur á dag í einrúmi þar sem ekkert þarf að gera annað en að draga andann getur gert alveg helling fyrir líkama og sál.