Á dögunum opnaði í Reykjavík nýr veitingastaður sem sérhæfir sig í kjöti – sem sagt alvöru steikhús.
Ég get ekki annað en glaðst yfir því þar sem ég er mikil steikarkona og veit fátt betra en að gæða mér á góðri steik með úrvals rauðvíni.
Reykjavík Meat
Það lá því í augum uppi að þennan stað yrði ég að prófa fyrr en seinna. Staðurinn sem hér um ræðir heitir Reykjavík Meat og er á Frakkastíg 8b, mitt á milli Laugavegs og Hverfisgötu. Og nafn hans segir allt sem segja þarf.
Vel hefur verið vandað til allrar hönnunar á staðnum og er hann hinn glæsilegasti. Borð, stólar, lýsing og litaval er með afbrigðum smekklegt en um leið hlýlegt. Þetta er sem sagt virkilega hlýlegur staður sem notalegt og gott er að koma inn á. Á kvöldin er kósý stemning með dempuðum ljósum og kertum á borðum – alveg tilvalinn staður fyrir stefnumót.
Verðlauna kjötframleiðandi
Þar sem Reykjavík Meat er steikhús gefur það auga leið að matseðillinn samanstendur að mestu leyti af kjöti, og þá aðallega nauti. En fyrir þá sem ekki vilja kjöt þá er m.a. boðið upp á lax, þorsk og veganrétti.
Nautasteikurnar eru úr fyrsta flokks hráefni, bæði íslenskar sem innfluttar. Íslenska kjötið kemur frá Kjötkompaní, og eins og flestir vita þá klikkar kjötið þaðan ekki. Þá er einnig boðið upp á sashi steikur frá danska kjötframleiðandanum Jn Meat, en hann hefur unnið til verðlauna fyrir framleiðslu sína og nú síðast sem besti kjötframleiðandi í World Steak Challenge.
Fylltist valkvíða
Þeir forréttir sem í boði eru eru allir það spennandi að ég fylltist valkvíða. En ég endaði á að fá mér túnfiskinn. Um er að ræða túnfisk Tataki, sem er létt steiktur og brúnaður að utan en vel bleikur að innan og síðan skorinn í sneiðar – borinn fram með radísum, rauðlauk og yuzu. Þetta var ótrúlega góður réttur og túnfiskurinn algjörlega fullkominn. Mig langaði einnig mikið til að prófa kolaeldaða rauðrófu en það bíður næstu heimsóknar.
Borðfélagi minn pantaði nauta tartar með kapers, engiferi, eggjarauðu og sinnepsfræjum í forrétt. Rétturinn var afskaplega fallega fram borinn og smakkaðist víst afar vel.
Í aðalrétt varð íslensk nautalund fyrir valinu. Kjötið var bragðgott, mjúkt og bráðnaði hreinlega í munni. Meðlætið pantar maður sér og létum við franskar kartöflur duga í þetta sinn – enda var ég þangað komin fyrst og fremst til að smakka nautakjötið. Ég held ég muni sleppa frönskunum í næstu heimsókn þar sem þær voru of þurrar fyrir minn smekk og mæli ég frekar með því að velja bakaðar kartöflur, aspas eða sveppi.
Flottir kokteilar og sérvalinn vínseðill
Ég verð líka að minnast á kokteila staðarins sem eru virkilega flottir og góðir og vel þess virði að prófa. Sá sem ég fékk á undan matnum heitir Patrick´s Paloma og er með betri kokteilum sem ég hef smakkað. Mikill metnaður er lagður í vínseðil staðarins og er vínið sérvalið.
Þá er ekki hægt að ljúka þessari umfjöllun án þess að dásama þjónustu staðarins. En hún er með afbrigðum fagmannleg og góð – augljóslega valinn maður í hverju rúmi og fólk sem hefur lært sitt fag.
Það er svo sannarlega hægt að mæla með Reykjavík Meat en þarna er kominn staður sem virkilega vantaði í Reykjavík. Afbragðs flott og gott steikhús með frábæra þjónustu.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com