Með aldrinum er eðlilegt að brjóstin sígi og lögun þeirra breytist. Margar konur hugsa lítið um að þjálfa brjóstasvæðið. En staðreyndin er sú að það má reyna að sporna við þessari þróun með einföldum æfingum.
Með því að þjálfa vöðvana kringum brjóstin geturðu hjálpað til við að þetta svæði endurheimti að hluta til fyrra ástand sitt. Æfingarnar stækka þó ekki brjóstin heldur bæta aðeins útlit þeirra.
Einfalt að gera þetta heima
Auðvelt er að gera þessar æfingar heima og það eina sem þarf eru handlóð og mjúk motta. Og svo má notast við húsgögnin á heimilinu. Gott er að gera æfingarnar 3 – 5 sinnum í viku.
Gömlu góðu armbeygjurnar eru mjög góðar fyrir brjóstin. En ef þú ert ekki í formi er mikilvægt að fara varlega í þær og byrja afar rólega og auka síðan við jafnt og þétt við. Gættu þess líka að gera armbeygjurnar rétt. Ef það eru mörg ár síðan þú gerðir síðast armbeygjur þá mun þetta vissulega taka á og því er um að gera að sýna skynsemi svo þú hvorki meiðir þig né slasir. Þú gætir þess vegna byrjað á að gera 2 til 3 armbeygjur í fyrsta skiptið og bætt svo einni og einni við þar til þú ert komin upp í rútínu. Þegar æfingunni er náð er ágætt að gera 10 í einu og hvíla svo í 1 ½ mínútu á milli þar til þú gerir aðrar 10.
Farðu mjög varlega ef þú ert ekki í formi
Ef þú ert hins vegar ekki í neinu formi er mjög góð leið að byrja á því að gera armbeygjurnar við rúm, borð eða stól. Þú getur byrjað á einhverju háu, eins og eldhúsborði, og fært þig svo í lægri og lægri húsgögn. Þegar þér finnst þetta orðið auðvelt geturðu byrjað á því að gera þær á gólfinu. En ef þú átt hins vegar erfitt með að leggjast á gólfið þá geturðu haldið þig við þessar því þær virka líka vel.
Að lyfta lóðum
Æfingar með lóðum eru líka mjög góðar fyrir brjóstin. Gættu þess að velja nógu þung lóð en alls ekki of þung. Ágætt er líka, ef þú hefur ekki lyft lóðum áður, að byrja á því að fá þér tiltölulega létt lóð, t.d. 1,0 kg., og fá þér síðan þyngri lóð þegar þú ert komin í ágæta æfingu. Mikilvægt er að ögra sjálfum sér aðeins til að stuðla að frekari vöðvauppbyggingu.
Ágætar æfingar fyrir vöðvana á brjóstasvæðinu og í kring getur þú gert með því að liggja á mottu eða bekk, stórum bolta og jafnvel gæti stór fótaskemill dugað.
Plankaæfingarnar sem hafa verið vinsælar gera þessu svæði líka gott. Fínt er að byrja á því að halda í 10 til 20 sekúndur og auka tímann svo smám saman í eina mínútu eða lengur eftir því sem þú kemst í betra form.