Þegar konur eldast verða breytingar bæði á húð og hári.
Vissar hárgreiðslur og ákveðnir hárlitir sem áður virkuðu gera allt í einu ekkert fyrir þig. Þess vegna þarf að endurskoða bæði greiðsluna og hárlitinn þegar aldurinn færist yfir.
Litaraftið er ekki lengur það sama og því passar ekki endilega lengur að vera með hvítt aflitað hár. Því er víst þannig farið að sumt getur látið konur líta út fyrir að vera eldri en þær eru á meðan annað lætur þær líta út fyrir að vera yngri.
Hér er eitt og annað sem vert er að forðast
Að nota of mikið af vörum í hárið
Þótt sumt geti hjálpað við að gera hárið meðfærilegra þá virkar það ekki vel að nota of mikið af vörum. Mikið hárlakk getur t.d. gert hárið mattara þannig að náttúrulegur glans þess njóti sín ekki. Og glansandi fallegt hár er einmitt til þess fallið að gera útlitið unglegra.
Beinn „bob“
Og þá sérstaklega ef hárið er litað svart því það gerir allar hrukkur og fínar línur meira áberandi. Þessi klipping og þessi litur gefur konum líka mjög alvarlegt yfirbragð.
Hár sem klippt er aðeins í styttur virkar mun léttara og veitir unglegra yfirbragð. Léttari bob hentar betur.
Bob klipping í ljósara hári getur þó verið klassísk eins og sjá má t.d. á Önnu Wintour.
Að aflita hárið
Það gerir þig ekki unglegri. Þótt þú hafir einu sinni verið með fallegt ljóst hár þá er það ekki endilega málið út lífið. Líkt og húðin þá breytist hárið líka með aldrinum.
Aflitað hár dregur fram hrukkur og fínar línur og gerir þær meira áberandi. Þess utan þá fer það illa með hárið að nota þessi sterku efni, þau þurrka hárið upp og svipta það sínum eðlilega gljáa.
Að lita hárið of dökkt
Þetta gerir lítið annað en að draga fram bauga og aðrar misfellur. Betra er að mýkja litinn upp með mildari tónum.
Að næra hárið ekki nóg
Hár sem er mjög þurrt virkar gamalt því það skortir allan glans. Mikilvægt er að veita hárinu þá næringu sem það þarfnast. Það má gera með góðum vörum eins og djúpnæringu, serumi, hármöskum og öðrum næringum.
Gott er líka að velja sjampó sem eru laus við súlfat og minnka notkun hárblásara, sléttu- og krullujárna. Þá skiptir líka máli hvað þú borðar en fæðan getur haft mikil áhrif á útlit og heilbrigði hársins.