Það eru gjarnan þessir litlu hlutir sem oftar en ekki eru risa stórir þegar upp er staðið.
Hver myndi segja nei takk við því að vera hamingjusamari? Það hlýtur að vera ágætis markmið að vilja vera hamingjusamur!
En sumir leita langt yfir skammt að hamingjunni. Hún er nefnilega oftast miklu nær okkur en margir halda. Og þá komum við aftur að litlu hlutunum.
Þessi sjö atriði er gott að hafa í huga alla daga
1. Að leita stöðugt að sökudólg eða afsökun
Ekki láta hamingju þína stjórnast af utanaðkomandi aðstæðum. Hvort sem við eigum í erfiðu sambandi, vinnan angrar okkur eða okkur skortir peninga þá gagnast lítið að kenna því alfarið um óhaminguna. Það er aðeins léleg afsökun sem við notum allt of oft.
Hamingjan kemur ekki frá því sem við gerum eða afrekum. Við öðlumst fyrst og fremst hamingju þegar við erum virkilega þakklát fyrir líf okkar og það sem við höfum. Það er þó ekki þar með sagt að við eigum ekki að halda áfram að bæta okkur og gera vel.
2. Verum ekki afbrýðisöm út í það sem aðrir hafa
Hamingjusamir einstaklingar eru þakklátir fyrir það sem þeir hafa. Þegar við öfundumst út í það sem aðrir eiga og hafa er það merki þess að við séum ekki ánægð með það sem við sjálf höfum í okkar lífi.
Það er ekki skynsamlegt að reyna stöðugt að lifa lífi annarra og vilja gera eins og aðrir. Þannig nær maður aldrei að vera ánægður með sitt og hindrar þar með hamingjuferlið.
3. Að gera lítið annað en að kvarta
Lífið er fullt af óvæntum uppákomum og áskorunum. Ef við gerum lítið annað en að kvarta festumst við í neikvæðni. Gætum okkar á því að festast ekki í því að gera ekki neitt.
Kvart og kvein hjálpar okkur ekki að færast nær markmiðum okkar. Stundum þarf líka einfaldlega að sætta sig við að maður þarf að sleppa takinu á einhverju til að verða hamingjusamur.
4. Látum ekki dramað ná tökum á lífi okkar
Stundum komum við okkur í aðstæður sem eru okkur ekki góðar. Að blanda sér of mikið í annarra vandamál og drama getur dregið dilk á eftir sér. Auðvitað gerum við þetta í þeirri von og trú að við séum að hjálpa og laga en það er svo oft sem það er ekki okkar að laga hlutina.
Sumir eru háðir drama og sogast hreinlega að slíku en sannleikurinn er sá að það er engum hollt. Lærum að lifa lífinu í ró og næði og látum aðra um dramað.
5. Látum ekki áhyggjur og streitu éta okkur upp
Við breytum engu með því að hafa stöðugar áhyggjur. Og margt af því sem við höfum áhyggjur af er eitthvað sem aldrei verður að veruleika. Það þýðir aðeins eitt; við getum aldrei breytt því sem ekki verður. Hvers vegna þá að hafa áhyggjur af því?
Þegar við leyfum áhyggjum og streitu að ná yfirhöndinni líður okkur samt stundum þannig að við séum mjög virk og athafnasöm en raunveruleikinn er samt sá að með því færumst við fjær hamingjunni.
6. Ekki vera of mikið ein/n
Maður er manns gaman og þótt það sé öllum hollt og gott að vera einn með sjálfum sér er líka nauðsynlegt að vera innan um fólk. Sambönd sem bæði þroska og láta okkur líða vel gera okkur hamingjusamari.
Ef við eyðum of miklum tíma ein kemur það í veg fyrir frekari þroska og þróun. Að vera einn með sjálfum sér til að hlaða batteríin er engu að síður alveg jafn mikilvægt og að vera á meðal fólks. Reynum að halda jafnvægi í því.
7. Gleymum ekki að hreyfa okkur
Það eru margar ástæður fyrir því að við ættum að hreyfa okkur daglega. En allt of oft finnum við afsökun fyrir því að gera það ekki. Eins og allir vita er hreyfingin líkamanum nauðsynleg en hún er líka góð fyrir andlega heilsu.
Þegar okkur líður vel bæði líkamlega og andlega hækkar það hamingjustuðulinn.