Skiptir fatastærð þín þig miklu máli?
Og skilgreinir þú sjálfa þig og aðra út frá því hvað eitthvað númer á merkimiða segir?
Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að svara þessu játandi því svo virðist vera að nútímakonan sé þræll stærðarmiða. Eða kannski hefur það alltaf verið þannig. En talið er að konur séu mun líklegri til að kaupa sér flík ef númerið á miðanum er „rétta stærðin“.
En hvað er rétta stærðin?
Fatastærðir hafa lengi verið konum hugleiknar. Ég man til dæmis þegar ég var unglingur þá þótti voða flott að vera í gallabuxum númer 26. Stærðarmiðinn var á þeim tíma oftast utan á buxunum, við strenginn að aftan, þar sem allir sáu. Og skvísurnar tryggðu auðvitað að miðinn sæist með því að vera í stuttum toppum eða girða ofan í.
Í dag eru stærðir afar misjafnar og ólíkar milli landa og framleiðenda. Núllstærðin vinsæla og umtalaða er t.d. bandarísk stærð og má segja að sé orðin nokkurs konar viðmið ansi víða. Stúlkur og konur um allan heim vilja geta keypt sér föt í stærð núll. Stór hluti af aðdráttarafli stærðinnar liggur auðvitað í orðinu sjálfu, það er að segja NÚLL. Þetta segir sig sjálft, stærðin er ekkert – núll og nix!
Númerin lækka og lækka – bara hégómi
Margir vilja meina að þetta sé stórkostleg markaðsbrella. Stærðin núll hefur nefnilega ekkert alltaf verið til. Með árunum hafa stærðirnar minnkað, eða það er að segja að númerin hafa lækkað. Fyrir um sextíu til sjötíu árum árum síðan var minnsta stærðin númer tíu. Síðan þá hafa stærðirnar smátt og smátt breyst og lægri og lægri númer bæst við. Minnsta stærðin fyrir um fjörtíu árum síðan var númer fjögur og frá því fyrir milli tíu og fimmtán árum síðan hefur verið hægt að fá flíkur í stærðinni NÚLLNÚLL. Og já, það eru til konur sem passa í þá stærð.
En þrátt fyrir að númerin hafi lækkað hafa konur ekkert minnkað. Kannanir sýna að meðalkonan sé frekar þrýstnari í dag en áður. Og það sem veldur þessum minni fatastærðum er víst ekkert annað en hégómi. Framleiðendur og fataiðnaðurinn eru löngu búnir að kveikja á því að konum líður betur að kaupa sér föt í minni stærðum. Í blindni þykjumst við ekki sjá þetta en ef við opnum augun áttum við okkur á þessu. Því miður hefur tískuiðnaðurinn líka gert það og framleiðir nú föt fyrir hégómagirnd okkar þar sem flíkurnar sjálfar eru stærri en númerin lægri.
Rétta stærðin er einfaldlega sú sem passar þér og klæðir þig vel
Samt er það nú ekki einu sinni svo einfalt að sama stærðin passi alltaf því númer geta verið afar ólík á milli framleiðenda. Það felst meðal annars í því hver markhópur framleiðandans er. Því yngri sem markhópurinn er því minni eru fatastærðirnar. Það er fátt verra en að slást við að troða sér í flík bara af því að miðinn á henni segir að þetta sé „rétta stærðin“.
Ósamræmi í stærðum getur verið neikvætt fyrir marga og haft áhrif á sjálsálitið þar sem sumir eru ekki andlega reiðubúnir í að fara í aðra stærð en þeir telja rétta. Málið er bara ekki svona einfalt. Þú gætir verið í stærð tvö í dag en þurft númer sex í næstu viku hjá öðru fatamerki. Rétta stærðin er einfaldlega sú sem passar þér og klæðir þig vel – alveg sama hvað númerið á miðanum segir.
Stærðin skiptir ekki máli
Á meðan framleiðendur spila á hégómagirnd viðskiptavinarins, sem alsæll kaupir sér flík í „minni“ stærð og upplifir sig um leið grennri, þurfum við að læra að stærðin skiptir ekki máli. Eina leiðin er að líta á stærðarmiðann sem leiðbeinandi upplýsingar en ekki sem heilagan sannleika.
Hættum að horfa á stærðarmiðann – hann skiptir hvort eð ekki nokkru máli!