Ert þú stundum svolítið uppþembd? Og er maginn eins og þú sért komin fjóra mánuði á leið?
Fylgja þessu kannski líka verkir og vindgangur?
Fylgifiskur breytingaskeiðsins
Þú ert svo sannarlega ekki ein um það. Að vera t .d. á leiðinni í boð eða eitthvað út og ætla sér í þröng og aðsniðin föt en þurfa síðan að hætta við af því maginn stendur grjótharður út í loftið getur verið ansi hreint ergilegt.
Þetta er því miður einn leiðinlegur fylgifiskur breytingaskeiðsins. Uppþemban tengist auknu gasi í þörmunum og vökvateppu sem hvort tveggja orsakast af flöktandi hormónum. Hversu lengi í einu þessi uppþemba varir fer alveg eftir hverri og einni konu. Þetta geta verið nokkrir dagar á ári og langur tími liðið á milli eða þá varað samfellt í nokkra mánuði.
Suma morgna vaknar þú með nokkuð flatan og flottan maga en svo þegar líða tekur á daginn er maginn farinn að þenjast út í loftið. Þessu geta líka fylgt óþægindi, vindverkir og brjóstsviði.
Þessu fylgir vindgangur
Uppþemba getur líka verið afleiðing mataræðis eða mikils álags en líkleg orsök hjá konum á breytingaskeiði er hormónaójafnvægi og er þá estrógen sökudólgurinn. Estrógen hefur áhrif á vökvasöfnun eins og konur þekkja úr tíðahringnum. Meiri vökvi safnast fyrir í líkamanum dagana fyrir tíðir vegna hækkandi magns estrógens. Svipað er uppi á teningnum á breytingaskeiðinu þegar estrógenið veður út um allt og vökvasöfnunin veldur uppþembu sem getur látið konur líta út fyrir að vera ófrískar.
Oft fylgir vindgangur uppþembunni sem getur verið vandræðalegt fyrir sumar dömur. Og er það algengt að konur leysi óvænt og óvart vind þegar þær síst ætla sér. Sumar konur kvarta undan því að þær séu stundum svo fullar af gasi að þær megi varla hreyfa sig án þess að þær prumpi. Þetta getur gerst í búðinni þegar þú ætlar að beygja þig niður í neðstu hillu, þegar þú hnerrar eða þegar þú hlærð innilega eða bara þegar þú ert að labba í mestu rólegheitum.
Hvað þú borðar getur skipt máli
Vissar fæðutegundir geta aukið á vandann og er það frekar kaldhæðnislegt að margar þær fæðutegundir sem konum á þessum aldri er ráðlagt að borða geta valdið slæmum vindgangi. Má til dæmis nefna spergilkál, hvítkál, blómkál, epli, lauk, hafra, perur, mjólk og mjúka osta.
Hins vegar þykir sannað að bananar, vínber, egg, hrísgrjón, hnetusmjör, ávaxtasafi, jurtate, jógúrt og harðir ostar geti minnkað loft og komið í veg fyrir uppþembu.