Móðirin segir eitthvað og kemur jafnvel með einhverjar ásakanir sem gerir það að verkum að unglingsdóttirin skellir hurðum – og talar síðan ekki við móður sína í einhvern tíma.
Er þetta ekki nokkuð sem margir kannast við?
Og hver er ástæðan?
Að minnsta kosti er þetta er víst afar algengt samskiptamunstur á milli mæðgna. En samkvæmt sálfræðingum og ráðgjöfum er talið að sambandið á milli móður og unglingsdóttur sé eitt það átakamesta og eldfimasta innan fjölskyldunnar.
Og hver skyldi helsta ástæða þess vera?
Jú hún er sú að mæður líta gjarnan á dætur sínar sem framlengingu á sjálfum sér á meðan dæturnar eru að hamast við að finna sín persónulegu sérkenni og að móta sitt eigið sjálfstæði.
Mæðurnar vilja eitt en dæturnar allt annað
Samkvæmt sérfræðingum eiga mæður það til að samsama sig frekar við dætur en syni og þá bæði líkamlega sem andlega. Þá vilja þær vernda dætur sínar fyrir því að þær geri sömu mistök og þær sjálfar gerðu þegar þær voru yngri. Og síðast en ekki síst vilja þær veita dætrum sínum þau tækifæri sem þær sjálfar fengu aldrei. En það sem vegur kannski þyngst í þessu er að um leið vilja þær að dæturnar séu eins og þær sjálfar.
En ekkert af þessu er hins vegar það sem unglingsdóttirin vill. Hún er að reyna að aðskilja sig frá móður sinni og sér þetta því allt öðrum augum en móðirin. Þegar móðirin telur sig vera að vernda dóttur sína upplifir dóttirin það á þann hátt að móðirin sé að reyna að stjórna henni. Auk þess tekur hún leiðsögn móðurinnar sem óþarfa gagnrýni og vanþóknun á eigin gjörðum.
Í grunninn er þetta þannig að móðirin leggur eigin væntingar á dóttur sína og afleiðingarnar eru þær að dótturinni finnst hún þurfa að uppfylla væntingar móðurinnar vilji hún öðlast hennar viðurkenningu.
Þessi átök hefjast fyrr í dag
Slík átök milli mæðgna hefjast fyrr nú í seinni tíð, oft jafnvel þegar dæturnar eru ekki nema 10 eða 11 ára. Stúlkur eru farnar að fara fyrr í gegnum kynþroskann og samfélagslegur þrýstingur flýtir einnig gjarnan fyrir ferlinu. Þá hafa samfélagsmiðlarnir líka sín áhrif og mæðrum finnst þær þurfa að leiðbeina dætrum sínum enn frekar en hér áður fyrr, sem getur síðan skapað meiri spennu þeirra á milli.
Eitt enn sem spilar síðan inn í er móðir sem komin er á breytingaskeið, en dóttir á kynþroskaskeiði og móðir á breytingaskeiði er ekki góð blanda.