Já, það er allt í lagi að sleppa tökunum á sumu fólki í lífi þínu. Margir hinsvegar trúa hinu gagnstæða.
Þegar samband milli þín og einhvers sem þér þykir vænt um er að renna út í sandinn reyna flestir að gera allt sem þeir geta til að halda manneskjunni áfram í lífi sínu. Þetta getur verið maki, góður vinur, fjölskyldumeðlimur, eða hver sem er sem þú átt djúp tengsl við.
Látum tilfinningarnar ráða
Það er alveg virðingavert þegar við berjumst við að halda fólki í lífi okkar, en það er ekki endilega alltaf það besta fyrir okkur. Í þessum tilfellum hugsum við frekar með hjartanu í stað þess að hlusta á skynsemina. Við látum tilfinningarnar ráða för sem gerir það að verkum að við horfum framhjá þeirri staðreynd að það sé jafnvel betra að sleppa takinu.
En það eru nokkrar góðar ástæður fyrir því að við þurfum ekki að láta okkur líða illa þegar við slítum tengsl við ákveðið fólk.
Kíkjum á þessar ástæður
1. Þú ert að vaxa og þróast
Eftir því sem þú eldist og öðlast meiri reynslu í lífinu ferðu að hugsa öðruvísi. Það sem þú lærir á lífsleiðinni mótar þig og þú sérð hlutina í nýju ljósi. Þú ert að vaxa og viðmið þín að hækka. Þetta er gott mál, en fyrir fólk sem hefur þekkt þig lengi eins og vinir og fjölskylda finnst breytingin ekki alltaf jafn jákvæð.
Þau telja sig þekkja þig og hafa ákveðnar hugmyndir um hvaða manneskja þú hefur að geyma, svo skyndilegar breytingar geta hrætt þau. Þau jafnvel koma með ásakanir um að þú sért orðin allt önnur manneskja en þú varst, og að þau þekki þig ekki lengur.
Þetta fólk gerir allt annað en að hvetja þig til dáða og vaxtar í lífinu og vill halda þér á sama stað því það er þægilegra fyrir það. Þú þarft ekki á svona fólki að halda. Haltu þig frekar frá fólki sem lætur þig fá samviskubit fyrir að vaxa og dafna sem manneskja.
2. Sýndu sjálfri/sjálfum þér næga virðingu
Sumt fólk sem þú tengist á lífsleiðinni gerir hvað sem er til þess á ná sínu fram án þess að taka tillit til þín. Þetta fólk er eigingjarnt. Þessir einstaklingar láta sem þú skiptir þá máli en það er bara vegna þess að þau þurfa á þér að halda. Þeir gefa það í skyn að þeir séu til staðar þegar þú þarft á að halda. En þegar kemur að því eru þeir með eintómar afsakanir.
Allt sem þeir gera er að þiggja í ykkar samskiptum en gefa aldrei til baka. Stundum er bara komið nóg. Þú verður að setja einhver mörk fyrir sjálfa/n þig og hversu langt þú ert til í að fara fyrir þetta fólk. Sýndu sjálfri/sjálfum þér næga virðingu og beindu frekar samskiptum þínum að fólki sem endurgeldur vinskap þinn og ást. Það fólk vill þér það besta og er til staðar fyrir þig í hvaða kringumstæðum sem er.
3. Stundum gengur þetta hreinlega ekki upp
Þú hefur sennilega heyrt þetta áður en það þarf ekki að þvinga fram hluti sem gerast náttúrulega. Það sama á við um sambönd þín við vini, kunningja og jafnvel fjölskyldumeðlimi. Ef það mistekst aftur og aftur að byggja upp einhverskonar samskipti við einhvern er hollara fyrir þig að sjá hlutina í réttu ljósi.
Stundum er sársaukafyllra að halda sumum samskiptum áfram en að horfast í augum við sársaukann sem fylgir því að sleppa tökunum. Þú getur ekki átt góð samskipti við alla sem þú hittir í lífinu – en það er líka allt í lagi. Sumir koma einfaldlega inn í líf þitt um stuttan tíma til að kenna þér eitthvað sem þú þarft að læra á þeim tímapunkti. Það eitt að viðurkenna það sparar þér heilmikla orku og vanlíðan þegar til lengra tíma er litið.
Það að berjast fyrir því að halda einhverjum í lífi sínu er göfugt. Það sýnir að þú ert manneskja sem gefst ekki svo auðveldlega upp á fólkinu sem þú elskar. En þú þarft að hugsa um þinn hag fyrst. Ef samskiptin eru eitruð er betra að sleppa manneskjunni. Hugsaðu um þig fyrst því þegar öllu er á á botninn hvolft er það fyrst og fremst sambandið við sjálfa/n þig sem þarf að vera í lagi.
Greinin birtist á stevenaitchison.co.uk