Hvenær er rétti tíminn til að skreyta fyrir jólin?
Þetta er afar umdeild spurning og sitt sýnist hverjum – og margir hreinlega ranghvolfa augunum yfir jólaskreytingum.
Svo segja rannsóknir
En þótt margir pirri sig á jólaskreytingum mörgum vikum fyrir jól þá hefur það víst samt sína kosti… alla vega fyrir þá sem eru tímanlega í því að draga jólaskrautið upp.
Rannsóknir sýna fram á að þeir sem fara snemma í það að skreyta hjá sér séu hamingjusamari og í betri tengslum við barnið innra með sér. Og að þeir sem nöldra og tuða yfir jólaskrauti, og það þótt aðeins vika sé til jóla, séu ekki eins hamingjusamir og þeir sem verða ofurspenntir fyrir jólunum snemma.
Sterkar minningar og æskujól
Ástæðu þess að fólk vill skreyta snemma og komast í jólagírinn má oft rekja til ákveðinnar nostalgíu. Fólk vill upplifa þessa töfra sem það minnist frá æskujólum og einnig minna jólin okkur á látna ástvini og því getur þetta líka verið ljúfsár tími.
Í hröðum heimi þar sem stress og kvíði eru ríkjandi þættir finnst fólki það notaleg tilhugsun að hugsa um jólin og jólaskrautið – hátíð sem einkennist af kærleika og gleði. Og svo vekja jólin oftast upp sterkar minningar frá áhyggjulausri æskunni.
Jólin eru leiðin að þessum töfrandi og spennandi tíma æskunnar – svo það að setja jólaskrautið upp snemma framlengir spenninginn og gleðina. Þetta hefur taugafræðilegar afleiðingar í för með sér sem leiða til hamingju og gleði hjá fólki. Það að skreyta og hugsa um jólin brýtur upp hversdaginn og fólk upplifir vellíðunartilfinningu og ekki er ólíklegt að heilinn finni fyrir hækkun á dópamíni.
Jólahátíðin vekur vissulega upp nostalgíuna hjá fólki og hún auðveldar fólki að tengjast fortíðinni og skilja sjálfsmynd sína. Svo fyrir marga þá sem vilja skreyta snemma er þetta leiðin til að tengjast æskunni aftur.
Gott fyrir andlega heilsu
Niðurstaðan, samkvæmt rannsóknum, er sú að það að skreyta fyrir jólin er GOTT fyrir andlegu heilsuna.
Svo er eftir einhverju að bíða? Skellum upp nokkrum jólaljósum og fallegu skrauti og látum okkur líða vel!