Ef þú ert ein/n af þeim sem kemur þér of seint í rúmið, blótar, hlærð að grófum bröndurum og ert með frekar druslulegt í kringum þig eru hér góðar fréttir.
Já það hefur hingað til ekki talist til mikilla kosta að hafa allt í drasli, blóta og fara seint að sofa – og flestir þannig einstaklingar hafa fengið að heyra það í gegnum tíðina, bæði hjá foreldrum sem og mökum.
En ekki láta það á þig fá því vísindin segja að búir þú yfir þessum óæskilegu eiginleikum eru allar líkur á því að þú sért greindari en gengur og gerist. Þú ert víst snillingur!
Blótsyrði tengd hærri greindarvísitölu
Því hefur gjarnan verið haldið fram að þeir sem nota blótsyrði séu ekki nógu greindir til að nota annan orðaforða. En samkvæmt vísindunum er það víst alls ekki raunin.
Rannsóknir sýna fram á að blótsyrði eru tengd notkun almenns orðaforða og þeir sem geta spýtt út úr sér fjölda blótsyrða á einni mínútu eru yfirleitt með hærri greindarvísitölu en aðrir. Það sama á víst við um þá sem hafa gaman af grófum bröndurum í samblandi við blótsyrðin – en þá er ekki átt við móðgandi eða særandi brandara sem gera t.d. lítið úr konum.
Að fara seint að sofa
Við mannfólkið getum farið að sofa þegar okkur sýnist en þannig hefur það ekki alltaf verið. Frummaðurinn hafði t.d. hvorki eld né rafmagn og því var til lítils að vaka fram eftir og reyndar var það stórhættulegt.
En í dag fer fólk að sofa þegar því hentar. Og vísindamenn telja að greindara fólk fari seinna að sofa en aðrir – og að þeir einstaklingar sofi minna en hinir. Þetta var staðfest með rannsókn sem gerð var á ungum bandaríkjamönnum þar sem kom í ljós að greindarvísitala þeirra í barnæsku hafði mikið með það að segja hvenær þessir einstaklingar fóru í rúmið. Þeir sem voru með greindarvísitölu upp á 75 eða minna fóru mun fyrr að sofa en þeir sem voru að minnsta kosti með greindarvísitölu upp á 125.
Það ber þó að taka það fram að það að standa í karpi á Facebook langt fram eftir nóttu þýðir ekki að þú sért næsti Albert Einstein. Það sem einkennir þá sem fara seint að sofa og eru greindari en aðrir er að þeir eru að lesa góðar bækur eða gera eitthvað annað uppbyggilegt sem eykur visku þeirra.
Þá má einnig minna á að afar mikilvægt er að sofa 7 til 9 tíma á nóttu og hafa einhverja reglu á svefninum fyrir líkamlega sem andlega heilsu.
Allt í drasli
Svo virðist vera sem að mjög greint fólk eyði minni tíma í að taka til og þrífa þar sem hugur þeirra er upptekinn við allt aðrar hugmyndir og pælingar. Sérfræðingar segja að ringulreið í umhverfinu bendi til frjórri huga á meðan t.d. skrifborð með allt í röð og reglu bendi frekar til þess að viðkomandi velji öruggu leiðina.
Þá leiðist víst mjög greindum einstaklingum frekar en öðrum og kjósa þeir að eyða meiri tíma í hugsanir sínar – því séu þessir einstaklingar ekki jafn virkir og eru víst í eðli sínu latir.
Ert þú snillingur?
Heimildir – The Hearty Soul