Ég er ein af þeim sem hef barist við það alla mína ævi að vera á réttum tíma og stundvís – en það hefur gengið misvel í gegnum tíðina.
Þess vegna gleðst ég alltaf jafnmikið þegar vísindalegar rannsóknir sýna fram á að það sé eitthvað jákvætt við það að vera alltaf á síðustu stundu.
Góðar fréttir
Hér eru einmitt slíkar góðar fréttir sem gleðja okkur sem eigum í erfiðleikum með að vera á réttum tíma. Talið er að þeir sem eru alltaf of seinir hafi þann sérstaka eiginleika að finna ekki fyrir stressi. Og við vitum öll að stress er virkilega slæmt fyrir heilsuna. Þannig að þegar horft er á heildarmyndina þá eru þessi einstaklingar líklega bæði við betri hjartaheilsu sem geðheilsu – og lifa þar af leiðandi lengur samkvæmt sérfræðingum. Það er nú aldeilis ávinningur út af fyrir sig, ekki satt!
Bjartsýnir og skynja ekki tímann
Samkvæmt vísindamönnum eru þeir sem alltaf eru of seinir bjartsýnni og reyndar líka óraunsærri en gengur og gerist. En þetta tvennt hefur áhrif á skynjun þeirra á tíma. Þessir einstaklingar trúa því virkilega að á einum klukkutíma geti þeir farið út að hlaupa, náð í fötin í hreinsun, farið í búðina og sótt börnin í skólann. Kannist þið við þetta?
Þá eru þeir sem alltaf eru of seinir taldir hrifnæmari og áhugasamari en þeir stundvísu. Og staðreyndin er víst sú að þeir hlakka líka meira til en aðrir. En veikleikar þeirra liggja í því að þeir eru með hugann svolítið dreifðan, óagaðir og taka of mikið að sér – en á móti gerir jákvæðnin þeim það kleift að vera skemmtilegir, með miklar væntingar og að lifa í núinu. Jákvæðnin gerir það víst líka að verkum að þessum einstaklingum vegnar oft vel í lífinu og þeir eru meira skapandi en aðrir. Þetta verður bara betra og betra.
Finnst tíminn lengri en hann er
Það mikilvægasta í þessu er kannski samt það að þeim einstaklingum sem alltaf eru of seinir finnst tíminn í bókstaflegir merkingu lengur að líða en öðrum. Í rannsókn sem gerð var af vísindamanni við háskólann í San Diego í Bandaríkjunum var þáttakendum rannsóknarinnar skipt í tvo hópa og þeir síðan spurðir eftir eina mínútu hvað þeir héldu að væri liðinn langur tími. Þeir keppnisfullu og óþolinmóðu sögðu 58 sekúndur á meðan þeir slöku og skapandi sögðu 77 sekúndur. Þeim finnst sem sagt tíminn vera lengri en hann raunverulega er.
Þegar upp er staðið eru kostirnir kannski fleiri en gallarnir en það á auðvitað bara við þann sem er alltaf of seinn. Því miður líða hinir stundvísu fyrir það að vera sífellt að bíða eftir okkur.
Jóna Ósk Pétursdóttir – kokteillinn@gmail.com