Mikið er rætt, skrifað og rannsakað um ágæti þess að borða súkkulaði – og gleðjumst við hér alltaf jafnmikið þegar við fáum góða ástæðu til þess að gæða okkur á þessari dásemd.
Það er nú samt ekki eins og við þurfum alltaf ástæðu til að borða súkkulaði en samt virkilega gott til þess að vita að maður er að gera sjálfum sér greiða um leið.
Alveg nauðsynlegt að fá súkkulaði
Getur verið að með hærri aldri sé það heilanum nauðsynlegt að fá súkkulaði?
Það er kannski full djúpt í árina tekið að segja að það sé nauðsynlegt – en það hentar svona sælkerum ágætlega að túlka þetta þannig.
Og hvað haldið þið! Samkvæmt rannsóknum er súkkulaði nefnilega alveg stórgott fyrir heilann. Og ekki nóg með það því það er talið auka heilastarfsemina þegar við eldumst – meira að segja meira en góður leikfimitími.
Þetta segja rannsóknir – og ekki ljúga vísindin
Hópur sérfræðinga við Columbia og NYU háskólana í Bandaríkjunum sýndi fram á með rannsókn sem gerð var á heilbrigðum 50 til 69 ára gömlum einstaklingum að flavanols sem finna má í kakói gerði fólkinu gott. Eins og þeir bjuggust við þá sýndu þeir sem fengu stærri skammt meiri heilavirkni og voru með betra minni en hinir sem fengu minni skammt. En það sem þeir bjuggust hins vegar ekki við að finna út var að heilastarfsemin breyttist ekkert hjá þessu sama fólki með aukinni hreyfingu.
Þannig að til að halda heilanum sprækum er gott að fá sér súkkulaði daglega.
Önnur rannsókn sem gerð var í Maine háskólanum í Bandaríkjunum sýndi fram á hið sama. Í þeirri rannsókn voru þáttakendur á aldrinum 23 til 98 ára. Niðurstaða rannsóknarinnar var á þá leið að þeir sem borðuðu reglulega súkkulaði sýndu betri heilavirkni en hinir. Því oftar sem þáttakendur borðuðu súkkulaði því betur komu þeir út í rannsókninni sé litið til allra minnisþátta og þess að lesa úr upplýsingum og röksemdarfærslu.
Er þetta ekki dásamlegt að vita!