Í heimi þar sem útlitsdýrkun er ríkjandi getur verið erfitt að vera til. Þeir sem vinna við að koma fram og jafnvel lifa á „fegurð“ sinni lenda oft illa í því þar sem fjölmiðlar og gagnrýnendur geta verið óvægnir.
Sumar konur óánægðar með allt
Hér á okkar litla landi þekkjum við mörg dæmi þess að konur hafi verið svo gagneknar af útlitinu að líkaminn hafi gefið eftir og heilsan brugðist. Það er erfitt þegar líf manns snýst fyrst og fremst um útlitið og þannig ætti það auðvitað ekki að vera. En á meðan konur gera sjálfar svona miklar kröfur til sín mun þetta ekki breytast.
Í fullkomnum heimi myndi hver kona elska sinn eigin líkama – en því miður lifum við ekki í fullkomnum heimi. Í okkar heimi er nefnilega næstum því hver einasta kona óánægð með eitthvað í líkamsvexti sínum og sumar eru óánægðar með allt.
Það sem líklega gerir þetta enn verra í dag er að í glanstímaritum og á netinu sjáum við varla orðið myndir af konum sem ekki er búið að fótósjoppa eða eiga eitthvað við. Við sjáum bara glansmyndir þar sem allar konur virðast vera fullkomnar. Og svo lítum við á eigin líkama og fyllumst vanmáttarkennd og óánægju.
Þess vegna er mikilvægt að hafa í huga að ENGINN er eins og ENGINN er fullkomin! En það er vissulega hægara sagt en gert.
Hér eru frægar og fallegar konur sem hafa dáið langt fyrir aldur fram af völdum átröskunar
Söngkonan með gullröddina, Karen Carpenter, hafði allt til að bera. Eina fallegustu rödd í heimi, útgeislun og fegurð. En það dugði ekki til því hún var gagntekin af þyngdinni og þjáðist af anorexíu. Aðeins 32 ára gömul, eftir margra ára megrun og veikindi, lést Karen þegar hjartað gaf sig.
Karen hraust og falleg
Og hér er hún orðin veik
Mexíkóska leikkonan Karla Alvarez lést 41 árs að aldri þar sem hjarta og lungu gáfu sig. Hún hafði átt við átröskun að stríða til fjölda ára.
Karla áður en hún er orðin veik
Og hér er farið að halla undan fæti
Franska fyrirsætan og leikkonan, Isabelle Caro, lést aðeins 28 ára að aldri en hún hafði þjáðst af anorexíu frá því hún var 13 ára gömul. Isabelle varð alþjóðlegt andlit, árið 2007, fyrir ítalska auglýsingaherferð sem átti að vekja fólk til umhugsunar um hversu alvarlegur sjúkdómur átröskun er.
Þetta eru aðeins þrjár fallegar og hæfileikaríkar konur sem hafa fallið í valinn fyrir þessum hræðilega sjúkdómi. Því miður er þær svo miklu, miklu fleiri sem hafa dáið langt fyrir aldur fram vegna þess að lífið snerist um útlitið.