Margar konur á ákveðnum aldri kannast við það þegar roðinn og hitinn sprettur fram í andlitið upp úr þurru. Þetta getur verið afar óþægilegt og gerst á verstu tímum
Flestir kannast við og hafa heyrt um hitakófin sem angra margar konur á breytingaskeiði. En færri vita um roðaköstin sem geta verið ansi hvimleið á þessu tímabili.
Gerist alveg upp úr þurru
Roðaköst eru eitt einkenni breytingaskeiðsins en þau valda því að konur eldroðna skyndilega – og oftast alveg upp úr þurru. Þá þýtur blóðið fram í húðina svo hún verður skærbleik og heit. Hér eru hormónar líkamans að verki en þeim má alfarið kenna um þessi roðaköst þar sem þau tengjast magni estrógens í blóðinu.
Misjafnt hversu lengi þetta tímabil varir
Ólíkt hitakófum þá fylgir roðaköstum ekki alltaf sviti. Eins og með önnur einkenni þessa tímabils fá ekki allar konur slík köst en sumar geta fengið nokkuð áköf köst í um það bil eitt ár en síðan dregur smátt og smátt úr þeim. Hversu lengi þetta tímabil varir fer eftir því hversu hratt magn estrógens minnkar í blóðinu.
Konur sem áttu það til að roðna oft á unglingsárum, þegar hormónarnir voru alveg á fullu, kvarta sumar yfir því að á breytingaskeiði komi þetta allt aftur.
Í sjálfu sér er lítið hægt að gera við þessu annað en að bíða eftir að hormónaflöktið taki enda.
En einnig má leitast við að forðast allt það sem gæti komið þessu af stað, ef það er þá yfir höfuð eitthvað sérstakt. Það gæti verið eitthvað sem þú borðar eða einhverjar ákveðnar aðstæður.
En svo er líka mjög líklegt að það sé nákvæmlega ekkert sérstakt sem komi þessu af stað þar sem þetta tengist fyrst og fremst hormónunum.