Þáttur mataræðis í tilurð og framgangi hjartasjúkdóma er mikilvægur. En kransæðasjúkdómur hrjáir þúsundir Íslendinga og er algengasta dánarorsök landsmanna.
Áhættuþættirnir eiga það flestir sameiginlegt að tengjast náið þeim lífsstíl sem við temjum okkur. Með lífsstílsbreytingum er því hægt að hafa jákvæð áhrif á áhættuþættina og þannig draga úr líkum á því að fá kransæðasjúkdóm. Og þar gegnir mataræðið veigamiklu hlutverki.
Heilsusamlegt og hjartavænt mataræði
Grænmeti af öllum gerðum, helst í flest mál, og í ríflegu magni, að minnsta kosti 250 g á dag, þar með talið rótargrænmeti svo sem rófur og gulrætur, alls kyns kál, tómatar, avókadó, grasker af ýmsu tagi, laukar og hvítlaukur. Athugið að kartöflur eru ekki taldar til grænmetis í þessu samhengi.
Hnetur og fræ, helst á hverjum degi, gjarnan ólíkar gerðir, til dæmis í salöt, sem snakk, á graut eða múslí.
Baunir og ertur, til dæmis kjúklingabaunir eða linsubaunir, geta verið uppistaða í aðalmáltíð í stað kjöts, helst að minnsta kosti
vikulega.
Ávextir og ber hvern dag, að minnsta kosti tveir skammtar á dag. Ávaxtasafi kemur ekki í stað ferskra ávaxta og þurrkaðir ávextir eru snakk eða sætindi þar sem þeir eru mjög orkuríkir.
Heilkornavörur, helst tvisvar á dag. Heilkornabrauð úr heilhveiti, rúgi eða öðru grófu korni.
Múslí eða grautur úr höfrum, rúgi eða byggi.
Heilkornapasta, bankabygg eða brún hrísgrjón með kjöti eða fiski og í salöt.
Fiskur, bæði magur og feitur fiskur, tvisvar til þrisvar í viku sem aðalmáltíð. Að auki er æskilegt að nota fisk, til dæmis silung, síld,
Makríl eða túnfisk sem álegg eða í salöt. Ekki þarf að forðast skelfisk eins og rækjur.
Fituminni mjólkurvörur, daglega eða oftar. Skyr, súrmjólk eða hrein jógúrt og léttmjólk eða undanrenna til drykkjar.
Og fæða sem æskilegt er að skipta út
Nota fljótandi olíur í staðinn fyrir harða fitu (fita sem harðnar í ísskáp).
Nota jurtaolíu á borð við rapsolíu (oft nefnd repjuolía eða Canola olía), ólífuolíu, sojaolíu eða aðra fljótandi olíu í matargerð, bakstur og á salöt, eftir því sem hægt er.
Nota majones eða pestó úr olíum að einhverju leyti í staðinn fyrir smjör, smjörlíki eða rjómalöguð salöt.
Velja oftar feitan fisk í staðinn fyrir feitt kjöt.
Óhollusta – ekki hjartvænt
Sætindi, gosdrykkir, kex, kökur og flögur. Þessar fæðutegundir innihalda ýmist mikinn sykur, harða fitu og/eða salt. Í staðinn má gera snakk úr hnetum, fræjum og þurrkuðum ávöxtum, og baka vöfflur, brauð, kökur eða kex úr heilkorni.
Mikið unnar kjötvörur og feitt kjöt. Hér er átt við reyktar og/eða saltaðar kjötvörur, svo sem beikon, hangikjöt, bjúgu, saltkjöt og áleggspylsur. Betra er að velja fitulítið kjöt eða fuglakjöt og takmarka rautt kjöt við 500 grömm á viku eða minna (tvær til þrjár máltíðir á viku).
Unnin matvæli sem innihalda herta fitu.
Borðsalt. Salta ber matinn í hófi, og velja síður mjög saltar og unnar matvörur.
Þessi grein er úr Kransæðabókinni.
Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir