Þegar fólk veit að jarðvist þess er að ljúka er eðlilegt að það líti yfir farinn veg – en þá er líka algengt að eftirsjá vakni hjá mörgum.
Áströlsk kona, Bronnie að nafni, sem starfaði í nokkur ár við líknandi meðferðir í heimahúsum upplifði og kynntist ýmsu í starfi sínu. En það veitti henni ákveðna hugljómun gagnvart eigin lífi og ákvað hún að setja upplifun sína og skjólstæðinga sinna saman í bókina The Top Five Regrets of the Dying er endaði síðan sem metsölubók.
Þegar fólk þarf að horfast í augu við dauðann
Sjúklingarnir sem Bronnie annaðist komu heim til sín til að deyja og hún var með þeim síðustu þrjár til tólf vikurnar af lífi þeirra. Bronnie segist hafa átt alveg einstakan tíma með þessu fólki.
Hennar upplifun er sú að fólk þroskist mikið þegar það þurfi að horfast í augu við dauðann. En Bronnie fór með þeim í gegnum allan tilfinningaskalann; afneitun, hræðslu, reiði, iðrun, meiri reiði og að lokum sátt. En hún segir að allir hafi fundið sinn frið áður en þeir fóru, hver og einn einasti.
Þegar hún spurði skjólstæðinga sína hvort það væri einhver eftirsjá í þeirra huga eða hvort þeir hefðu viljað gera eitthvað öðruvísi komu ítrekað sömu atriðin upp.
Hér eru þau fimm algengustu sem vöktu upp eftirsjá hjá fólki
1. Ég vildi að ég hefði haft hugrekki til þess að vera trúr sjálfri/sjálfum mér og lifað lífinu eins og ég vildi en ekki eins og aðrir ætluðust til af mér.
Þetta er algengasta eftirsjáin hjá fólki. Þegar það áttar sig á því að lífinu er að ljúka og lítur til baka og sér hvað það eru margir draumar óuppfylltir. Flestir hafa ekki einu sinni látið helming drauma sinna rætast.
Það er mikilvægt að gera það sem maður getur til að láta draumana rætast því þegar heilsan gefur sig er það orðið of seint. Heilsan færir okkur frelsi sem flestir átta sig ekki á fyrr en hún gefur sig.
2. Ég vildi að ég hefði ekki unnið svona mikið.
Þessi ummæli komu frá hverjum einasta karlmanni. Þeir misstu flestir af æsku barnanna vegna vinnu og anna, og af dýrmætum samverustundum með makanum.
Konur töluðu líka um þetta en ekki er ólíklegt að þeim eigi eftir að fjölga í framtíðinni því af þeirri kynslóð sem hér um ræðir var ekki jafn almennt að konur væru útivinnandi.
3. Ég vildi ég hefði haft hugrekki til að tjá tilfinningar mínar
Margt af þessu fólki hafði bælt niður tilfinningar sínar til að halda friðinn. Afleiðingin varð sú að það sætti sig við að lifa ekki til fulls og urðu því aldrei þeir einstaklingar sem þeir höfðu burði til að vera.
Þetta leiddi gjarnan til þess að þessir einstaklingar þróuðu með sér sjúkdóma sem rekja má til þeirrar biturðar og gremju sem þeir byrgðu inni og burðuðust með.
4. Ég vildi að ég hefði haldið sambandi við vini mína.
Margir verða svo uppteknir af eigin lífi að þeir láta dýrmætan vinskap fjara út. Algengt er að fólk átti sig ekki á því fyrr en á dánarbeði hversu mikilvægir gamlir vinir eru. Og eftirsjáin að hafa ekki ræktað vinskapinn verður sterk á þessum tíma og það er víst staðreynd að allir sakna vina sinna þegar þeir eru að deyja.
5. Ég vildi ég hefði leyft sjálfri/sjálfum mér að vera hamingjusamari.
Þessi ummæli komu á óvart. En margir átta sig ekki á því fyrr en allt of seint að það að vera hamingjusamur er val.
Fólk festist í gömlum siðum og venjum – og þægindin við það sem það þekkir yfirtekur lífið. Hræðsla við breytingar fékk það til að láta bæði aðra sem og sjálfa halda að það væri ánægt með lífið. En innst inni þráði þetta fólk mest að hlæja vel og innilega og hafa smá kjánaskap í lífinu aftur.
Þegar fólk er á dánarbeði er sú hugsun hvað öðrum finnst um þig svo órafjarri. En hvers vegna ekki að hugsa þannig áður en heilsan gefur sig?
Veldu lífið.
Veldu sannleikann.
Veldu hamingjuna.
Og gerðu það núna.
Áður en það verður of seint!