Viljum við ekki flest vera hamingjusöm?
Sumir telja hamingjuna reyndar vera ofmetna. En hvernig má það eiginlega vera – hvernig getur hamingjan verið ofmetin?
Því vísindalegar rannsóknir sýna fram á að það að vera hamingjusamur getur bæði lengt lífið og bætt heilsuna, auk þess að bæta almenna líðan. Það er því hreinlega ekki hægt að segja að hún sé ofmetin.
Ekki heppni
Eflaust vilja flestir vera hamingjusamir… alla vega innst inni við beinið. Sumir vita bara ekki hvernig þeir eiga að komast þangað og telja að það sé bara heppni að vera hamingjusamur – eða að maður sé aðeins hamingjusamur við ákveðnar aðstæður.
Þetta er alls ekki rétt því það að vera hamingjusamur er að miklu leyti okkar val.
Hér eru nokkur atriði sem einkenna þá sem eru hamingjusamir
Þakklæti
Að einblína á það sem þeir hafa í lífinu en ekki á það sem þeir hafa ekki. Sýnt þykir að óhamingjusamt fólk séu oft vanþakklátir einstaklingar.
Að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur getur gert gæfumuninn. Auðvitað er ekki alltaf allt eins og maður vill hafa það en í stað þess að sjá bara það sem er ekki í lagi er svo miklu betra að skoða allt það góða í lífi okkar.
Væntingar
Að vera með óraunhæfar væntingar. Vissulega er gott að gera kröfur og hafa metnað en grunnurinn að væntingum þínum verður að vera raunhæfur. Annars verðuru aldrei ánægð/ur.
Örlæti
Að vera örlátur og gjafmildur. Þeir sem eru eigingjarnir eru oft hvorki ánægðir né hamingjusamir. Hamingjusamir einstaklingar hugsa líka um aðra og gefa af tíma sínum eða auðæfum.
Breytingar
Ef þér líkar ekki við líf þitt taktu þá málin í þínar hendur og breyttu því. Viltu gera eitthvað öðruvísi, er eitthvað sem þú sérð eftir að hafa ekki gert, langar þig að komast eitthvað lengra en þar sem þú ert núna?
Það er í raun enginn sem heldur aftur af þér nema þú sjálf/ur. Ef þú bara situr og hugsar um þessa hluti og lætur þá angra þig ertu að koma í veg fyrir eigin hamingju.
Vera til
Hægðu á þér og leyfðu þér að lykta af blómunum. Ekki vera alltaf á fullu og gleyma að vera til – stundum er nefnilega gott að gera ekki neitt. Hittu vini þína eða gerðu stundum eitthvað óvænt og skemmtilegt. Lífið er hér og nú.
Fyrirgefningin
Að kunna að fyrirgefa. Þetta er virkilega mikilvægt því fyrirgefningin færir okkur frið. Að halda í reiðina og vera bitur getur eitrað líf þitt og komið í veg fyrir hamingjuna.
Fyrirgefðu þeim sem hafa sært þig eða gert eitthvað á þinn hlut – með því kemurðu í veg fyrir að þeir stjórni lífi þínu og þinni hamingju. En það er líka afar mikilvægt að geta fyrirgefið sjálfum sér, hafðu það í huga.
Engin styttri leið
Það er ekkert sjálfsagt eða gefið í þessu lífi, og það er ekki til nein styttri leið að betra lífi sem hægt er fara. Því fyrr sem þú áttar þig á því því betra.
Það þýðir ekkert að finnast maður eiga rétt á hinu og þessu því þannig er ekki lífið. Það þurfa allir að vinna fyrir sínu, elta drauma sína og koma sér þangað sem þeir vilja. Og ef maður er svo heppinn að vinna í lottóinu, eða eitthvað annað, þá er það bara bónus.
Jákvæðni
Jákvætt og gott viðhorf er mikilvægt. Þeir sem hafa gott viðhorf til lífsins eru yfirleitt hamingjusamir.
En það er ekki þar með sagt að fólk fæðist þannig. Þessir einstaklingar hafa oftast tileinkað sér slíkt viðhorf og ákveðið að vera jákvæðir og hamingjusamir. Þeir hafa tekið þá ákvörðun að láta tilfinningarnar ekki stjórna sér heldur að hafa stjórn á eigin tilfinningum.
Varfærni
Veldu orð þín þegar þú talar. Allt það sem þú setur út í kosmóið hefur áhrif – annað hvort á þig sjálfa/n eða aðra.
Veldu að nota orð sem eru uppbyggileg, hvetjandi og færa jákvæða orku í hverjar þær aðstæður sem þú ert í það og það skiptið. Og ef þú hefur ekkert gott eða fallegt að segja slepptu því þá að tala.
Tilgangur
Að finnast þú hafa tilgang í þessu lífi. Þeir einstaklingar sem upplifa að þeir skipti máli eru yfirleitt þeir hamingjusömustu. Það má finna tilgang í hinum ólíklegustu hlutum, verkefnum og aðstæðum – og mikilvægt er að hver og einn finni sinn tilgang.
Ferðalag eða áfangastaður?
Að lokum er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að hamingjan er ekki áfangastaður. Þeir sem eru hvað hamingjusamastir eru oftast þeir sem eru hvað minnst meðvitaðir um hamingju sína.
Hamingjan snýst nefnilega fyrst og fremst um það að læra að njóta ferðarinnar en ekki að komast á áfangastað.