Við höfum flest heyrt að systkinaröðin skipti máli, það er að segja hvar í röðinni þú ert og hvaða áhrif það hefur á persónuleikann.
Segja má að til séu ákveðnar staðalmyndir af elsta barninu, miðjubarninu og síðan því yngsta.
Sumir geta t.d. verið dæmigerð miðjubörn á meðan önnur miðjubörn kannast ekki við neitt af því sem talið er einkenna þau. Það er nefnilega þannig að aðrir þættir geta spilað inn í áhrif systkinaraðarinnar.
Elsta barnið
Staðalmyndin er sú að þeir sem eru elstir í systkinaröðinni séu leiðtogar, metnaðargjarnir og ábyrgðarfullir.
Og ástæðan fyrir því er sú að elsta barnið er eitt með foreldrum sínum til að byrja með og samkeppnin er engin. Barnið fær alla athyglina og samkvæmt norskri rannsókn er talið að elsta barnið sé með hærri greindarvísitölu en yngri systkinin. Elsta barnið tekur það alvarlega þegar það eignast systkini og kemur þá ábyrgðar- og verndunartilfinningin sterklega í ljós.
En svo getur þetta líka farið á hinn veginn og barnið ekki borið nein einkenni elsta barns. Það á við þegar foreldrarnir hafa of miklar væntingar til fyrsta barnsins og á þetta einnig við um einbirni. Þegar barnið upplifir kröfurnar og finnst því hafa mistekist að standa undir þeim og valdið foreldrum sínum vonbrigðum getur einstaklingurinn farið í allt aðra átt en staðalmyndin segir til um.
Miðjubarnið
Staðalmyndin segir að miðjubarnið sé félagslegt fiðrildi sem vill halda friðinn og er afar upptekið af því hvað sé sanngjarnt. Þá er oft talað um að miðjubarnið eigi erfiðast uppdráttar í systkinahópnum
Og ástæðan fyrir þessu er sú að miðjubarnið hefur hvorki sama rétt og elsta barnið né sömu forréttindi og yngsta barnið. Þess vegna verða þau sérfræðingar í því að semja og gera málamiðlanir. Þau halla sér líka oft að og leita til vina sinna þar sem athygli foreldranna er yfirleitt á elsta eða yngsta barninu.
Hins vegar getur þetta orðið allt öðruvísi ef elsta barnið er ekki dæmigert elsta barn – því þá er sú staða laus og sum miðjubörn grípa tækifærið fegins hendi.
Yngsta barnið
Staðalmyndin er sú að yngsta barnið sé heillandi, áhættusækið og frjálst í anda.
Ástæðan fyrir því er sú að foreldrarnir eru ekki jafn varkárir og með eldri börnin. Auk þess eru þeir reynslunni ríkari en þegar elsta barnið fæddist. Þá eru þeir vægari og umburðarlyndari svo yngsta barnið sleppur frekar við strangan aga og reglur þótt það fái engu að síður næga athygli.
En svo getur yngsta barnið verið allt öðruvísi, sérstaklega ef barninu finnst það ekki tekið alvarlega. Þá geta þessi börn orðið mjög ábyrgðarfull eins og elsta barnið eða miklar félagsverur eins og miðjubarnið.
En hér eru svo 5 atriði sem geta kollvarpað öllu því sem sagt er um systkinaröðina
1. Skapgerð
Skapgerð hefur mikið að segja. Um helmingur persónuleika okkar er skapgerðin. Skapgerð barns getur kollvarpað staðalmynd systkinaraðarinnar eða alla vega gert hana töluvert óljósari. Ætlast er til þess að elsta barnið standi sig í því sem foreldrunum finnst skipta mestu máli en ef barnið stendur ekki undir því geta væntingarnar færst yfir á annað systkini.
2. Kyn
Kyn skiptir líka töluverðu máli í systkinaröðinni. Ef fyrsta barnið er t.d. drengur og næsta barn stúlka þarf stúlkan ekki að berjast eins fyrir tilveru sinni og lifa í skugga drengsins líkt og ef um tvo drengi væri að ræða. Því stúlkan er strax við fæðingu öðruvísi en hann – og þegar fyrstu tvö börnin eru af sitt hvoru kyninu fá þau bæði einkenni elsta barnsins. Og það getur líka gerst að yngra barnið skyggi á það eldra.
3. Líkamleg stærð/geta
Líkamleg stærð og geta getur einnig haft áhrif. Oftast er það þannig að eldri systkini ráðskast með þau yngri. En ef t.d. elsta barnið er smávaxið eða þá miðjubarnið og jafnvel það yngsta líkamlega stór og sterk geta hlutverkin snúist við.
4. Sérstakur einstaklingur
Þegar eitt barnið er sérstakt. Auðvitað eru öll börn sérstök – en hér er verið að tala um einstaka hæfileika og annað slíkt. Þegar eitt barn í fjölskyldunni er snillingur í einhverju fær það barn oft sérstaka meðferð og er meðhöndlað eins og elsta barn alveg sama hvar í systkinaröðinni það er. Fyrir sérstaka barnið þýðir þetta að staðalmyndin þurrkast út eins og t.d. miðjubarns einkennið.
5. Aldursmunur
Aldursmunur er enn einn þátturinn sem hefur áhrif. Því styttra sem er á milli systkina því meiri verður samkeppnin. Þegar eitt til tvö ár eru á milli barna, og sérstaklega ef þau eru af sama kyni verða átökin meiri. En þetta þýðir samt ekki að börnin verði ekki náin og góðir vinir þegar þau eldast. Yngra barnið getur líka yfirtekið hlutverk þess eldra með því að vera fyrra til, betra og sterkara. Þau gætu líka tekið þann pól í hæðina að velja alltaf að gera annað en eldra systkinið, þ.e. í tómstundum og slíku.
Þrjú til fjögur ár á milli barna er einfaldara, þá er aldursbilið hæfilegt til að bæði börnin fá sitt svigrúm. En fimm til sex ár gæti haft þau áhrif að bæði börnin verði eins fyrsta barn.
Tvíburar falla ekki undir þessa systkinaröð enda fá báðir tvíburarnir mikla athygli frá foreldrunum. Minni samkeppni er þó á milli eineggja tvíbura en tvíeggja og haga þeir síðarnefndu sér meira eins og systkini.