Flestir eiga líklega alla vega einn vin á Facebook sem deilir næstum því öllu sem hann gerir. Þetta getur verið einstaklingur sem þú hefur ekki hitt í mörg ár en samt veistu bókstaflega allt um viðkomandi.
Vísindamenn og þeir sem rannsakað hafa hegðun fólks á Facebook segja hana gefa skýrt til kynna hver persónuleiki okkar er.
Rannsókn sem framkvæmd var í Bretlandi á tengslum milli persónuleika og því sem fólk deilir með öðrum á Facebook leiddi ýmislegt áhugavert í ljós. Og það er gaman að sjá þessar ólíku týpur og samhengið í því hvernig þær pósta á samskiptamiðlinum.
Sumir stuða aðra á Facebook á meðan aðrir gera ekkert þar
Hvaða mann þú hefur að geyma og hvernig persónuleiki þú ert hefur miklu meira með það að segja en margir halda hvað, hvort og hvernig þú póstar á samskiptamiðlinum. Sumir stuða aðra á Facebook með póstum sínum á meðan aðrir gera ekkert þar. Það sem þú gerir, hversu ómerkilegt sem það er, getur endurspeglað það sem gengur á undir niðri í lífi þínu.
Allir póstar um börnin
Þeir sem pósta aðeins um börnin sín eru líklegastir til að tilheyra hópnum sem þykir varkár. Þetta eru skipulagðir, ábyrgðarfullir og duglegir einstaklingar sem nota Facebook minna en félagarnir. En þegar þeir skrá sig inn þá virðast þeir halda sig á öruggum slóðum og pósta gleðilegum fréttum af fjölskyldunni og skemmtilegum hlutum úr daglega lífinu.
Ekkert slúður hér þar sem þetta er varkárt fólk sem gætir sín í því sem það segir og gerir. Engu að síður þá eiga þessir einstaklingar fleiri vini á Facebook miðað við aðrar týpur.
Nota makann til að upphefja sjálfa sig
Þeir sem tilkynnna á Facebook allt sem maki þeirra gerir, þ.e. aðeins það góða auðvitað, eru taldir vera óöryggir og hafa lágt sjálfsmat. Þessir einstaklingar, sem finnst þeir þurfa að láta alla vita af því hvað þeir eiga æðislegan maka, eru að leitast við að auka eigið sjálfsmat og láta um leið alla vita að að þeir séu í hamingjusömu sambandi. En líklega eru þeir einna helst að sannfæra sjálfa sig.
Þessir póstar gera samt lítið annað en að stuða hina sem sjá þá og fá þá til að finnast minna koma til viðkomandi. Þannig að í raun virkar þetta öfugt fyrir þá.
Pólitísk viðhorf og vitsmunalegir póstar
Svo eru það þeir sem pósta aðallega pólitískum viðhorfum og vitsmunalegaum hlutum. Þeir eru taldir forvitnir, með opinn huga og sköpunargáfu.
Þessir einstaklingar sjá Facebook ekki sem vettvang fyrir eitthvað innihaldslaust og létt spjall heldur sem leið til að koma skilaboðum út í alheiminn og mikilvægum upplýsingum um eitthvað sem þeim finnst að allir ættu að vita.
Endalausar myndir af þeim sjálfum með vinunum
Þeir sem eru alltaf að pósta myndum af sjálfum sér í vinahópi eru þeir sem eru úthverfir. Þetta eru félagsverurnar sem hafa gaman af því að tala. Facebook er kjörinn vettvangur fyrir þá til að sýna hvað þeir stunda félagslífið mikið. Yfirleitt á þetta fólk stóran vinahóp sem birtist reglulega á myndum í póstum þeirra.
Þeir sem eru alltaf að sýna líkamlega formið
Einstaklingar sem sífellt pósta myndum af sjálfum sér og góðu líkamlegu formi sínu eru þeir sjálfhverfu. Þeir pósta þessum myndum til að sækjast eftir athygli og viðurkenningu og vissulega fá þeir fullt af „like-um“. En svo virðist sem vinir þeirra setji like við myndirnar til að vera kurteisir og að öllum líkindum eru þeir hundleiðir á öllum þessum myndum.
Dramadrottningarnar
Og svo eru það þeir sem eru með endalaust drama. Þetta eru taugaveikluðu og kvíðnu einstaklingarnir sem nota Facebook til að fá þá athygli og þann stuðning sem þá vantar í lífinu. Þeir eiga það til að deila ansi tilfinningaríkum og persónulegum póstum á samskiptamiðlinum.
Þar höfum við það! Kannast þú við eitthvað af þessu?