Við eyðum um einum þriðja af lífi okkar sofandi sem þýðir að við erum í draumaheimi stóran hluta ævinnar. Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á svefni og svefnvenjum okkar og er margt áhugavert að finna í niðurstöðum þeirra rannsókna.
Talið er að það hvernig við sofum, þ.e. hvernig uppáhalds og algengasta svefnstelling okkar er, segi heilmikið um okkur sem persónur.
Ólíkt hvernig við högum okkur í vöku og svefni
Hvernig við högum okkur í vöku og hvað við gerum í svefni er víst tvennt ólíkt. Á daginn leitumst við við að vera sú manneskja sem við viljum vera og sem við viljum að aðrir sjái og því sendum við ákveðin skilaboð frá okkur. Þetta er hins vegar ekki mögulegt í svefni.
Eitt af því sem rannsakað hefur verið er hvernig við höndlum sambönd og samskipti, og hvernig elskhugar við erum séð út frá því í hvaða stellingu við sofum.
Hvað segir þín stelling um þig, ertu opin/n, varkár, tortryggin/n, félagslynd/ur, rómantísk/ur eða eitthvað allt annað?
Fósturstellingin
Þetta er mjög algeng stellling. Og ef þú ert ein/n af þeim sem sefur í fósturstellingunni ertu víst týpan sem getur verið hörð en vilt engu að síður láta sjá og hugsa um þig. Þeir sem sofa svona eru taldir vera harðir að utan en mjúkir að innan.
Ef þetta er þín stelling er mjög líklegt að það taki þig góðan tíma að verða náinn einhverjum og enn lengri tíma þar til þú ert reiðubúinn að tjá einhverjum ást þína. Þetta þýðir samt ekki að þú hafir ekki sterkar tilfinningar heldur aðeins það að þér finnst erfitt að láta undan tilfinningunum. Allt þetta ferli tekur þig langan tíma en þegar þú loksins opnar þig eru sambönd þín ástrík og traust.
Á hliðinni með hendur beint út
Ef þú sefur á hliðinni með báðar hendur út að framan áttu erfitt með að treysta þínum nánustu. Stellingin lýsir því að þú sért í vörn og þú sért tortrygginn. Líklega hefurðu lent í því að vera særð/ur og ert því tortrygginn gagnvart samböndum.
Meira að segja í þínu eigin sambandi ertu stöðugt að leita að einhverju tortryggilegu þar sem þú óttast svo að eitthvað komi upp á. Í sjálfu sér trúir þú ekki á sambandið þar sem þú horfir á þetta þannig að sambandið muni að lokum taka enda.
Lurkurinn
Þeir sem sofa með handleggi samhliða líkama og fótum eru einstaklingar sem sem finnst gaman að fara út á meðal fólks. Þeir elska að fara á stefnumót sökum félagslega ávinningsins en ekki endilega vegna hrifningar eða ástar.
Þetta eru manneskjur sem treysta fullmikið og falla yfirleitt fyrir röngum aðilum – þetta er gott fólk sem lætur hina með slæman ásetning plata sig.
Koddakúrarinn
Þessi stelling útskýrir sig sjálf en þeir sem kreista og knúsa koddann sinn þegar þeir sofa eru einstaklingar sem elska að vera ástfangnir. Þetta eru rómantískir elskhugar sem kunna að meta sín sambönd og vilja vera nánir sínu fólki. Þeir eru alltaf á höttunum eftir ást, eru því ástríkir, miskunnsamir og alltaf tilbúnir í faðmlög og knús.
Á maganum með handleggi utan um koddann
Einstaklingar sem sofa á maganum með handleggi vafða utan um koddann eru hrikalega feimnir og óframfærnir. Ef þú sefur þannig er líklegt að þú berjist ekki fyrir sambandi þínu þar sem þér finnst þú ekki eiga að þurfa þess.
Þegar aðstæður verða óþægilegar og erfiðar snúa þessir einstaklingar gjarnan baki við vandamálinu í stað þess að berjast. Þá höndla þeir illa álag og erfiðar aðstæður og því endast þeir ekki vel í samböndum. Ástæðan er samt ekki sú að þessir einstaklingar séu veikgeðja heldur eru þeir ekki reiðubúnir til að taka þátt í sambandi sem snýst allt of mikið um átök.
Hugsuðurinn
Þeir sem sofa með hnefana kreppta undir hökunni efast stöðugt um samband sitt … eða alla vega þar til þeir telja sig alveg örugga. Eins og þeir sem sofa í fósturstellingunni eru þessir einstaklingar líka taldir harðir að utan en mjúkir að innan. En hugsuðurinn er þó meiri efasemdarmanneskja sem vill vera alveg handviss um að hann opni ekki hjarta sitt fyrir einhverjum sem muni síðar særa hann.
Stjörnufiskurinn
Þeir sem sofa á bakinu með báðar hendur upp á koddanum eru þægilegir einstaklingar og ljúfir elskhugar. Þessir einstaklingar gefa jafnmikla ást til baka og þeim er veitt.
Þetta eru tryggar og heiðarlegar manneskjur sem vilja finna sanna ást og láta ekki léttvæg smáatriði eða mistök hafa áhrif á sig. Þeir eiga auðvelt með að fara úr einu sambandi í annað án þess að verða miður sín eða skaðast andlega.