Það er ekkert nýtt að karlmenn vilji vera huggulegir um hárið og getur hártíska karlmanna alveg verið jafn breytileg og kvenmanna. Þá er það heldur ekkert nýtt að karlmenn noti efni í hárið á sér til að fullkomna greiðsluna – munurinn er bara sá að í dag er miklu meira úrval efna og möguleikarnir nærri óþrjótandi.
Hér eru nokkrir flottir herrar, á besta aldri, sem hugsa vel um hárið á sér.
David Beckham, 40 ára, hefur verið óhræddur í gegnum tíðina að skipta um hárgreiðslu.
Núna skartar hann þessari greiðslu, stutt í hliðum og að aftan – en sídd í hárinu að ofan. Dags daglega hefur hann hárið frjálslegt og smá villt. Llíklega blæs hann hárið til að fá lyftingu og setur síðan í það mótunarefni .
Þegar hann síðan klæðir sig upp greiðir hann hárið snyrtilega upp og hefur skiptinguna í hárinu þráðbeina og sýnilega. Og sleikir það svo niður í hliðunum.
Þetta er maður sem er með þetta alveg á hreinu.
Robert Downey Jr., 50 ára, er með herralega en samt strákslega klippingu. Toppurinn er stuttur og tekinn upp með mótunarefni. Að aftan og í hliðum er síðan höfð smá sídd, það er að segja að hárið er ekki rakað í hliðunum.
Matt LeBlanc, 47 ára, leyfir gráa litnum að njóta sín enda klæðir það hann mjög vel. Þá er hár hans líka farið að þynnast töluvert en honum tekst vel upp að gera sig strákslegan með réttum efnum í hárið.
Á þessarri mynd tekur hann hárið upp á miðju höfðinu og býr til skemmtilega og unglega greiðslu sem hentar honum afar vel. Þegar hann hins vegar fer í betri fötin hefur hann hárið ekki jafn mikið upp í loftið.
Þetta er góð klipping fyrir menn sem eru farnir að missa hár.
Josh Duhamel, 42 ára, er með sídd í toppnum og tekur hann upp, ekki ólíkt Beckham. Þessi greiðsla er vinsæl hjá mörgum þessa dagana enda einstaklega herraleg og smart.
En þessi klipping og greiðsla krefst þess líka að aðeins sé haft fyrir henni – ekkert stórmál samt og algjörlega þess virði.
George Clooney, 54 ára, er alltaf flottur og glæsilegur. Þessi klipping minnir á gullna gamla tíma og er í anda Mad Men þáttanna. Mjög herraleg og smart klipping en nota þarf mótunarefni svo hárið haldist flott.
Er eitthvað sem klæðir þennan mann ekki?
Hér er hann með allt hárið klippt mjög stutt. Klassískur og herralegur og tilvalin klipping fyrir menn sem vilja hafa þetta einfalt.
Ted Danson, 67 ára, hefur tekist einstaklega vel að halda sér unglegum og flottum og á hárgreiðsla hans ekki síst þátt í því.
Hann hefur smá sídd í hárinu að ofan og tekur það allt frá andlitinu svo það myndast lyfting. Þetta er ekki flókin greiðsla en krefst þess að efni sé notað í hárið.
Alec Baldwin, 57 ára, er alltaf sjarmerandi og hann veit að hárið skiptir miklu máli í heildarútlitinu. Eins og margir eldri menn tekur hann hárið frá andlitinu og hefur toppinn vel upp í loftið.
Þetta er herraleg og töff klipping sem ætti að henta flestum mönnum. En það er klárt mál að Alec vaknar ekki svona heldur gefur hann sér tíma í að fullkomna greiðsluna.
Þessar klippingar eru einfaldar en smart og ekki mikil vinna við að halda hárinu flottu. En þær gætu báðar þarfnast þess að nota örlítið efni í hárið til að klippingin njóti sín sem best.
Bruce Willis, 60 ára, er alltaf svalur – og hver segir að það þurfi hár til þess að vera svalur.
Það klæðir marga menn afar vel að vera hárlausir og er Bruce klárlega einn af þeim.