Þú þarft hvorki að vera listakokkur né snilldar bakari til að töfra fram þessa ómótstæðilegu Oreo ostaköku.
Þetta er ósköp einfalt og það þarf ekkert að baka. Svo er kakan auðvitað alveg svakalega góð.
Einfalt og gott – alveg eins og við viljum hafa það!
Þessi klikkar ekki og er algjörlega frábær sem eftirréttur og á veisluborðið.
Það sem þarf
Oreo kexkökur
2 msk bráðið smjör
250 ml rjómi
100 gr rjómaostur
3 msk flórsykur
¼ tsk vanilludropar
Aðferð
Takið um átta Oreo kexkökur (má vera aðeins meira), myljið þær fínt og látið í skál.
Hrærið bráðna smjörinu út í og blandið vel saman, setjið síðan í botninn á kökumóti og þjappið vel. Ekki nota of stórt kökumót því þetta er ekki stór uppskrift.
Þeytið þá rjómann en gætið þess að fullþeyta hann ekki, bara þykkja hann vel.
Takið aðra skál og blandið rjómaosti (við stofuhita), flórsykri og vanilludropum saman með þeytara.
Setjið síðan þeytta rjómann út í rómaostinn og blandið vel saman.
Brjótið nokkrar kexkökur í viðbót (gróflega) og bætið út í blönduna. Magn fer eftir smekk hvers og eins.
Smyrjið síðan blöndunni ofan á botninn með muldu Oreo kexkökunum.
Til að skreyta kökuna má brjóta nokkrar kexkökur í viðbót og setja ofan á hana.
Látið kökuna inn í ísskáp í nokkra klukkutíma, að lágmarki 5 til 6 tíma.
Takið út og njótið!
Sjáðu hér í myndbandinu hvað þetta er einfalt