Undanfarin ár hafa margir tekið upp á því að drekka safa af öllum gerðum og stærðum og sumir tekið tímabil þar sem safa er einungins neytt. Þá hafa einnig fjölmagir farið á slíka kúra til að reyna að léttast.
Umdeilt
En í dag, með aukinni vitneskju og rannsóknum, er umdeilt hvort skynsamlegt sé að drekka safa í öll mál og hvað það gerir raunverulega fyrir þig.
En hvað með annan vökva eins og t.d. súpur – hvað gera þær fyrir okkur? Súpur hafa verið til svo lengi sem við munum, svo þær ættu að vera búnar að sanna sig.
Borða minna
Lítil rannsókn sem gerð hefur verið sýndi fram á að einstaklingar sem fengu sér létta súpu fyrir hádegismat borðuðu minna án þess að finna fyrir því, þ.e. þeim fannst þeir alveg jafn saddir og ef þeir hefðu borðað meira.
En hvað er það sem gerir súpur góðan kost í þeirri viðleitni að ætla sér að borða minna? Vísindamenn segja það vera áferðina á súpunum. Súpur eru oftast þykkari en annar vökvi og það hefur þau áhrif á magann að manni finnst maður vera saddur og þá líka saddur lengur.
Að borða en ekki drekka
Ólíkt söfum þá eru súpur borðaðar með skeið og það tekur lengri tíma en að sjúga safa gegnum rör. Sannað þykir að það að borða hægar hjálpi til við að innbyrða færri hitaeiningar og að vera fyrr og lengur saddur.
Prófaðu að fá þér súpu í hádeginu í staðinn fyrir samlokuna og hafðu matarmikla súpu í kvöldmatinn. Málið snýst þó um að fá heimatilbúna súpu en ekki úr pakka. Og ef þú vilt léttast reyndu þá að sneiða hjá of rjómakenndum súpum.
Gættu þess líka að hafa hugann við það sem þú ert að borða og ekki gleyma þér í símanum eða tölvunni á meðan – því það getur leitt til þess að þú gleypir matinn í þig og borðir allt of hratt.