Þann 22. maí verður óperan Peter Grimes eftir Benjamin Britten frumflutt á Íslandi í Eldborgarsal Hörpu. Peter Grimes er meðal helstu óperubókmenntanna og er því reglulega á fjölum helstu óperuhúsa heims. Uppfærslan hér á landi er umfangsmikil tónleikauppfærsla og er samstarfsverkefni Íslensku Óperunnar, Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Listahátíðar í Reykjavík og Hörpu. Til að taka þátt í uppfærslunni koma hingað til lands tveir alþjóðlegir stórsöngvarar úr óperuheiminum sem munu syngja aðalhlutverkin.
Það er ástralski tenórinn Stuart Skelton sem syngur titilhlutverkið en hann var valinn söngvari ársins á International Opera Awards árið 2014. Skelton er á hátindi ferils síns um þessar mundir en hann hefur m.a. sungið hlutverk Peter Grimes víða undanfarin ár og hlotið mikið lof fyrir. Breska sópransöngkonan Susan Gritton syngur hlutverk Ellen Orford en Gritton hefur meðal annars sungið hlutverkið við Scala-óperuna. Þá mun einn okkar fremsti baritónsöngvari, Ólafur Kjartan Sigurðsson, stíga á stokk og syngja sitt fyrsta óperuhlutverk í Hörpu. En Kjartan býr og starfar erlendis. Með önnur hlutverk fara Hanna Dóra Sturludóttir, Garðar Thór Cortes, Hallveig Rúnarsdóttir, Snorri Wium, Ingveldur Ýr Jónsdóttir, Viðar Gunnarsson, Lilja Guðmundsdóttir, Jóhann Smári Sævarsson og Oddur Arnþór Jónsson. Auk þess tekur kór Íslensku óperunnar þátt í uppfærslunni. Um tónsprotann heldur síðan Daníel Bjarnason sem áður hefur stjórnað tveimur óperuuppfærslum í Hörpu.
Miðasala er í fullum gangi og er nú þegar orðið uppselt á ákveðnum svæðum. Það er því ekki seinna vænna að tryggja sér miða og taka daginn frá enda er hér um að ræða stórviðburð í íslensku tónlistarlífi.